Einstakir Djäss-tónleikar í Tryggvaskála

Tríóið DJÄSS. Ljósmynd/Sigtryggur Ari

Suðurlandsdjazzinn heldur áfram og næstkomandi laugardag verða einstakir tónleikar í portinu við Tryggvaskála á Selfossi klukkan 15:00.

DJÄSS, skipað Karli Olgeirssyni, píanóleikara, Kristni Snæ Agnarssyni, trommuleikara og Jóni Rafnssyni, bassaleikara, hefur starfað frá árinu 2010. Tríóið, sem fyrstu 10 starfsárin bar nafnið Hot Eskimos, hefur skapað sér nafn og sérstöðu með jazzútsetningum á íslenskum rokk-, punk- og dægurlögum. Þannig var lagavalið á þeirra fyrsta geisladiski Songs From the Top of the World (2011) og fékk hann frábæra dóma gagnrýnenda. Þessi diskur er nú einnig fáanlegur á vinyl.

Á disknum We Ride Polar Bears (2013) mátti heyra, auk þekktra íslenskra laga, nokkur frumsamin lög og erlend. Þriðja plata tríósins, sem einfaldlega ber nafnið DJÄSS, kom út árið 2021 og inniheldur eingöngu frumsamið efni. Fyrir tónsmíðarnar á þeirri plötu hlaut Karl Olgeirsson tilnefningu til íslensku tónlistarverðlaunanna sem tónskáld ársins í flokknum “jazz og blús”.

Tónleikadagskráin samanstendur af lögum af þessum plötum auk laga sem ekki hafa komið út, bæði tökulaga og frumsaminna, en tríóið vinnur nú að sinni fjórðu plötu.

Frítt er á tónleikana sem eru boði SASS, Tryggvaskála, Viking léttöl, Fíh og Sub ehf.

Fyrri greinÁrborg styrkti stöðu sína í toppbaráttunni
Næsta greinNíu sækja um starf forstöðumanns Lands og skógar