„Eins og að fara í geggjuð jakkaföt sem maður var búinn að gleyma“

Jónas Sig og hljómsveit ásamt Lúðrasveit Þorlákshafnar á æfingu í Þorlákshöfn í gær. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Við höfum oft talað um það okkar á milli að við yrðum að gera eitthvað á 10 ára afmælinu. Þetta var svo ótrúlegt móment á sínum tíma að það voru allir í sjokki sem upplifðu þetta. Tónleikarnir urðu að einhverri goðsögn hjá öllum sem voru þarna á staðnum,“ segir tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson, sem nú undirbýr tónleika með Lúðrasveit Þorlákshafnar í Háskólabíói næstkomandi föstudagskvöld.

Tónleikarnir eru haldnir í tilefni af því að tíu ár eru liðin frá því að Jónas og lúðrasveitin unnu saman að plötu Jónasar; Þar sem himin ber við haf og héldu mikla útgáfutónleika í Reiðhöll Guðmundar í Þorlákshöfn sem heppnuðust frábærlega.

Á plötunni voru mörg lög sem síðan hafa öðlast sjálfstætt líf eins og Hafið er svart, Þyrnigerðið og síðan gullmolar eins og Tónar við hafið, þar sem tónlistarhópur eldri borgara í Þorlákshöfn; Tónar & Trix kom við sögu.

Orðinn ofdekraður á öllu þessu stússi
Jónas segir að æfingar hafi gengið vel og að hópurinn hafi ekki þurft að grafa djúpt til þess að finna gamla fílinginn.

„Það kom okkur öllum rosalega á óvart. Þetta var eins og að fara í geggjuð jakkaföt sem maður var búinn að gleyma að maður ætti. Þetta er rosalega flott og orðið miklu meitlaðaðra. Þetta er mikið til sami hópurinn og síðast, ég er líka búinn að spila mikið undanfarin ár, þannig að þetta er orðið mjög samspilað og kraftmeira en áður. Ég nýt þess mikið að spila með lúðrasveitinni, ég er auðvitað orðinn ofdekraður á öllu þessu stússi, alltaf í stórum verkefnum með lúðrasveitinni eða Fjallabræðrum… það eru engar upptökur sem geta gert þessu almennilega skil. Maður verður að vera í salnum og skynja kraftinn,“ segir Jónas, sem sjálfur byrjaði sinn tónlistarferil með Lúðrasveit Þorlákshafnar á unglingsaldri.

Veisla fyrir augu og eyru
Á tónleikunum verður platan flutt í heild sinni ásamt eldri smellum Jónasar og nýja laginu, Faðir, sem Jónas og lúðrasveitin sendu frá sér á dögunum. Þar verður einnig gríðarlega mikið grafískt listaverk sýnt samhliða plötunni, sem unnið var af Þórarni F. Gylfasyni fyrir tónleikana fyrir 10 árum. Nú hefur hann, ásamt Agli Kristbjörnssyni, þróað það enn frekar og verður það án efa mikið sjónarspil á stóra skjánum í Háskólabíó.

„Mig var búið að dreyma um að vinna áfram þetta frábæra vídeólistaverk sem Þórarinn gerði með allri plötunni á sínum tíma. Þá vorum við að spila á nokkurs konar pop-up tónleikum og notuðum einhvern skjávarpa í reiðhöllinni. Núna erum við að vekja þetta allt upp aftur og vinna þetta upp á nýtt fyrir bíótjald, þetta er orðið rosalega stórt þannig að tónleikarnir verða veisla fyrir bæði augu og eyru,“ segir Jónas að lokum.

Sunnlenska.is leit við á æfingu Jónasar og lúðrasveitarinnar í Þorlákshöfn í gær og smellti af nokkrum myndum sem má sjá hér að neðan.

Fyrri greinFrumkvöðull í ræktun á seljurót
Næsta greinKynningarfundur á alútboði hjúkrunarheimilis í Hveragerði