Einars og Hlínar minnst í Herdísarvík

Í dag kl. 14 verður afhjúpað minningarskilti um þjóðskáldið Einar Benediktsson og Hlín Johnson, sem voru síðustu ábúendur í Herdísarvík í Selvogi.

Nemendafélagið Grimmhildur, félag H-nemenda (e. mature students) á Hugvísindasviði við Háskóla Íslands, hefur með stuðningi hollvina Herdísarvíkur látið útbúa minningarskiltið. Þá verður einnig afhjúpað örnefnaskilti sem áhugamannafélagið Ferlir hefur haft veg og vanda að. Á því er að finna margvíslegan fróðleik sem Ferlir hefur aflað um staðhætti, tóftir sjóbúða og búskap á jörðinni.

Einar Benediktsson ánafnaði Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík, sem í hans tíð var afskekkt. Með tilkomu Suðurstrandarvegar er Herdísarvík komin í alfaraleið. Í tilkynningu frá forsvarsmönnum atburðarins segir að við það opnist nýir möguleikar til að sinna verndun viðkvæmra sögu- og menningarminja sem þar eru. Uppbygging Herdísarvíkur geti þannig orðið mikilvægt skref í átt til þess að minningu skáldsins sé haldið betur á lofti en hingað til.

Athöfnin er öllum opin og í lok formlegrar afhjúpunar mun Ferlir leiða stutta göngu um svæðið og kaffihressing verður í húsi skáldsins og Hlínar.

Fyrri greinSelfoss lá gegn toppliðinu
Næsta greinSkuggamyndir og ljósmyndakeppni á Sólheimum