Einar spjallar við listunnendur

Í Listasafni Árnesinga má nú líta tilraun til þess að veita yfirsýn á þær fjölbreyttu birtingarmyndir sem Þingvellir hafa í íslenskri myndlist á sýningunni Myndin af Þingvöllum.

Sýningarstjóri er myndlistarmaðurinn Einar Garibaldi Eiríksson, en hann hefur sett saman sýningu úr verkum meira en 50 listamanna, sem fengin eru að láni bæði frá einstaklingum og helstu listasöfnum þjóðarinnar.

Í dag, laugardag kl. 14, mun Einar ræða við gesti Listasafnsins um sýninguna.

Elstu verk sýningarinnar eru eftir erlenda listamenn og ferðalanga 18. og 19. aldar, auk nokkurra af elstu ljósmyndum Sigfúsar Eymundssonar er hann tók á Þingvöllum í kringum Þjóðhátíðina árið 1874.

Sýningin varpar ljósi á þróun Þingvallamyndarinnar allt frá forvígismönnum íslenskar myndlistar í upphafi 20. aldar, í gegnum myndafjöld sjálfstæðisbaráttunnar og til öndvegisverka Kjarvals, ásamt því að víkja að brotthvarfi hennar á tímum eftirstríðsáranna og upprisu í meðförum yngri kynslóða.

Listasafn Árnesinga býður alla velkomna þar sem einn þekktasti staður sýslunnar er til skoðunar og tækifæri gefst að ræða við sýningarstjórann.

Fyrri greinFéll af krossara og rotaðist
Næsta greinFjör á íþróttahátíð