Egill afhjúpaður í dag

Styttan af Agli stendur við Tryggvatorg, fyrir utan húsið Sigtún í miðbæ Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í dag klukkan 17 verður afhjúpuð stytta af Agli Thorarensen, föður Selfoss, við Tryggvatorg á Selfossi.

Egill (1897-1961) var kaupmaður í Sigtúnum á Selfossi 1918-1930. Hann stýrði Kaupfélagi Árnesinga frá 1930, tók við formennsku í Mjólkurbúi Flóamanna ári síðar og gegndi báðum störfum til æviloka. Egill var óumdeilanlega fremsta athafnaskáld Sunnlendinga í áratugi og ruddi Selfossi braut sem höfuðstað Suðurlands og Þorlákshöfn hafnarbæ.

Það verður hátíðleg athöfn í dag þegar Egill verður boðinn velkominn heim. Lúðrasveit Selfoss keyrir upp stemninguna áður en Karlakór Selfoss og Kristján Jóhannsson þenja raddböndin. Ávörp flytja Guðni Ágústsson, stjórnarformaður Styttubandsins sem stendur fyrir viðburðinum, Fjóla Kristinsdóttir nýráðinn bæjarstjóri Árborgar og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.

Það verða síðan barnabarnabarnabörn Egils, öll búsett á Selfossi, sem afhjúpa styttuna af langalangafa sínum.

Fyrri greinDönsk þrenna í sigri Hamars
Næsta greinFyrsti fjallahjólagarðurinn á Íslandi