Ég vil fara „Upp í sveit“

Þrándarholt. Ljósmynd/skeidgnup.is

Sveitahátíðin Upp í sveit verður haldin í Skeiða- og Gnúpverjahreppi um helgina og er óhætt að segja að dagskráin sé glæsileg en hún tvinnast saman við dagskrá þjóðhátíðardagsins.

Á föstudag verður opið fjós í Þrándarholti og sömuleiðis í Heiðarbrún, þar sem garður og gróðurhús verða til sýnis. Kl. 19 verður varðeldur á Kálfárbökkum og síðan pubquiz á Brytanum í Árnesi.

Á þjóðhátíðardaginn verður hefðbundin hátíðardagskrá kl. 10 og í kjölfarið hátíðarkaffihlaðborð í boði sveitarfélagsins. Eftir hádegi verður froðurennibraut, koddaslagur og almenn gleði í Neslaug, flóamarkaður í félagsheimilinu í Árnesi, sparivélasýning og kassabílarallý. Klukkan 16 verður mjög áhugaverð matreiðslukeppni, þar sem keppt verður í pylsupastagerð og pylsupastamatreiðslumeistarinn verður krýndur. Klukkan 17 hefjast svo sveitaleikarnir, sem verða með svipuðu sniði og í fyrra.

Sunnudagurinn hefst á samfloti í Skeiðalaug, boðið verður upp á morgunverð, blómaskreytinganámskeið og námskeið í amerískum fótbolta. Í hádeginu verður grillað áður en BMX Brós mæta á svæðið og sýna listir sínar. Í Steinsholti verður garðmessa kl. 11 og síðan opin fjárhús og messukaffi og kl. 13 er gestum boðið að kíkja í vinnustofur og gróðurhús Skaftholts. Dagskrá Upp í sveit lýkur með kvöldgöngu með Bergi Björnssyni um leyndardóma Þjórsárdals kl. 21.

Fyrri greinSr. Kristján endurkjörinn vígslubiskup
Næsta greinStærð Hamars orðin flöskuháls í uppbyggingu verkmenntunar