„Ég er mjög stolt af þessu verki“

Fríða Hansen. Ljósmynd/aðsend

Þann 1. mars næstkomandi mun söngkonan Fríða Hansen halda útgáfutónleika á Sviðinu á Selfossi. Fyrsta plata Fríðu, Vaxtarverkir, kom út í fyrravor en á plötunni má finna sex frumsamin lög.

„Ég kalla tónleikana útgáfutónleika, til þess að fagna útgáfu Vaxtarverkja, en við munum líka flytja lög sem ég hef áður gefið út og eru ekki á plötunni. Einnig munum við frumflytja nokkur lög, sem hvergi hafa komið út eða heyrst áður,“ segir Fríða í samtali við sunnlenska.is.

Tónlist sem spannar allan skalann
Á tónleikunum verður einvala lið tónlistarmanna Fríðu til halds og trausts. „Stefán Þorleifsson verður á píanó, Alexander Freyr Olgeirsson á gítar, Árni Þór Guðjónsson á bassa og gítar og Óskar Þormarsson á trommur. Mögulega verður einn leynigestur í hljómsveitinni en það skýrist betur á næstu dögum! Svo fékk ég líka kórinn Sunnlenskar raddir til að syngja með mér í nokkrum lögum undir stjórn Stefáns. Þau munu líka að öllum líkindum frumflytja lag eftir mig á tónleikunum, í útsetningu Stefáns.“

Fríða segir að þetta verði skemmtileg kvöldstund þar sem tónskáldið og lagahöfundurinn Fríða Hansen fær að njóta sín. „Tónlist sem spannar allan skalann frá einföldu poppi í flóknara, klassískara kórverk. Rúsínan í pylsuendanum verður svo að Hreimur, sem ég hef verið svo heppin að fá að vinna með, ætlar að koma og syngja með mér nokkur lög. Og hver veit nema að Anna systir komi líka,“ segir Fríða og á þar við Önnu Hansen sem hefur verið að gera góða hluti með dönsku poppsveitinni Aqua.

Syngur um foreldrahlutverkið
Platan Vaxtarverkir er fyrsta plata Fríðu. „Í lögunum takast á andstæðar tilfinningar, ótti og hamingja, þar sem ég syng um það á persónulegum nótum hvernig mér líður í því að vera að fara að takast á við foreldrahlutverkið í fyrsta sinn.“

„Lögin eru poppuð og mis-dramatísk en skemmtileg. Ég er mjög stolt af þessu verki og af öllu ferlinu. Þetta var ekki alltaf auðvelt, en ég fékk með mér snilldar listafólk í undirbúninginn og útgáfu plötunnar sem gerði þetta svo skemmtilegt.“

„Vignir Snær Vigfússon, oft kenndur við Írafár, tók hana upp og hljóðblandaði, ásamt því að spila inn gítarana, bassa og stundum syntha. Stebbi minn Þorleifsson spilaði inn píanóið, Benedikt Brynleifsson spilaði trommurnar og Samúel Jón Samúelsson spilaði á básúnu og Kjartan Hákonarson á trompet.“

„Vignir Snær samdi líka með mér lagið Líttu nú upp og Stefán Þorleifsson samdi með mér lagið Hjartalag. Sigurdór Guðmundsson hljómjafnaði svo plötuna og var mér innan handar með hvers konar tæknimál. Svo má ekki gleyma Hörpu Rún – sem skrifaði með mér textann að laginu Ég kem til þín.“

„Tónleikarnir verða haldnir á Sviðinu, Selfossi og hvet ég fólk til að tryggja sér miða í tæka tíð! Andri og Árni, veitingamenn í miðbænum, ætla líka að bjóða upp á flott tilboð á mat og drykk í tilefni dagsins. Fylgist vel með á samfélagsmiðlunum þegar nær dregur,“ segir Fríða kát að lokum.

Miðasalan fer fram á Sviðinu. Einnig er hægt er að finna viðburðinn á Facebook.

Fyrri greinMikilvæg stig í pokann
Næsta greinBryndís Eva íþróttamaður Þjótanda 2023