„Ég auðvitað fríkaði út af gleði“

Guðfinna og Kristjana í Stúdíó Tónverk. Ljósmynd/Kristjana Stefánsdóttir

Vinkonurnar Guðfinna Gunnarsdóttir og Kristjana Stefánsdóttir frá Selfossi eru komnar í úrslit Jólalagakeppni Rásar 2 með lagið sitt Hversu fagurt væri það?

Rúmlega fjörutíu frumsamin lög bárust í keppnina í ár og átta þeirra komust í úrslit.

„Við Kristjana erum góðar vinkonur og höfum unnið saman áður. Hún samdi tónlistina í sýningu sem ég gerði hjá Leikfélagi Selfoss, Vertu svona kona. Þar varð til eitt lag, Barmafullt hjarta, við ljóð sem ég skrifaði,“ segir Guðfinna í samtali við sunnlenska.is.

„Við eigum mjög auðvelt með að vinna saman. Kristjana heyrði í mér í fyrra og spurði mig hvort ég ætti jólaljóð, ég átti ekkert, en settist niður og velti fyrir mér minni upplifun af jólunum og hvað mér finnst jólin vera. Ég sendi henni ljóð og hún kom strax fram með lag, svo bætti ég við erindi og þetta small svona líka skemmtilega,“ segir Guðfinna en þær stöllur hafa hvorugar sent inn lag í keppnina áður.

Fallegt lag sem á skilið hlustun
Guðfinna segir að hún hafi verið á fullu að prófa nemendur þegar Kristjana sendi henni skilaboð að þær væru komnar í úrslit. „Ég varð svakalega glöð af því að mér finnst lagið vandað og fallegt og eiga skilið hlustun,“ segir Guðfinna en hún starfar sem enskukennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Kristjana segir að hún hafi frétt af því að þær væru komnar í úrslit í gegnum vinkonu sína. „Ég fékk símhringingu frá vinkonu minni sem heyrði lagið og tilkynninguna á Rás 2 og á sama tíma komu samskonar skilaboð á Facebook frá annarri vinkonu. Ég auðvitað fríkaði út af gleði og sendi strax línu á Guðfinnu um að lagið hefði verið valið í 8 laga úrslit af þeim 40 lögum sem að bárust í keppnina,“ segir Kristjana.

Stefna á frekari samstarf
Kristjana segir að þær hafi ekki verið lengi að semja lagið. „Í raun og veru kom lagið mjög hratt. Ætli ég hafi ekki verið ca. tvær klukkustundir með kaffipásum að semja það í grunninn eftir að textinn kom frá Guðfinnu. Það er mjög mismunandi hvernig lög verða til, sum koma nánast tilbúin meðan að önnur eru í mánuði, jafnvel ár að semjast.“

Vinkonurnar hafa báðar verið að semja mikið í gegnum tíðina. Guðfinna hefur skrifað ljóð og leiktexta og segir að hana langi til að gera meira. „Ég á ýmislegt í handraðanum,“ segir Guðfinna. Kristjana hefur verið að semja í nokkur ár, mest fyrir sýningar í Borgarleikhúsinu en hún hefur starfað sem tónlistarkona og tónskáld um árabil.

Sem fyrr segir samdi Guðfinna textann og Kristjana lagið. „En ég fékk svo að fylgjast með öllu ferlinu við upptökur og spekúlasjónir varðandi lagið, það var mjög áhugavert og mér finnst ég eiga mikið í því,“ segir Guðfinna. Kristjana segir að textinn hafi kveikt lagið. „Viðlagið fæddist fyrst og svo kom þetta koll af kolli. Ég fínpússaði svo alla hugmyndina þegar ég gerði demó sem ég sendi svo á hljóðfæraleikarana sem spila lagið. Við stefnum á frekara samstarf, erum með spennandi hugmyndir sem við erum að skoða,“ segir Kristjana að lokum.

Upplýsingar um lagið:
Hversu fagurt væri það?
Lag: Kristjana Stefánsdóttir
Texti: Guðfinna Gunnarsdóttir
Upptökur fóru fram í Stúdíó Tónverk  13. ágúst og 2. október 2019

Söngur: Kristjana Stefánsdóttir
Wurlitzer: Steingrímur Teague
Hammond: Daði Birgisson
Bassagítar og rafmagnsgítar: Daníel Helgason
Trommur og slagverk: Bassi Ólafsson
Raddir: Soffía Stefáns, Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir, Myrra Rós, Agnes Erna & Lay Low.
Útsetning: Kristjana og hljómsveit.

Lagakosningunni lýkur klukkan 09:00 fimmtudagsmorguninn 12. desember. Lagið sem verður fyrir valinu fær útnefninguna jólalag Rásar 2 árið 2019 og sigurvegarinn vegleg verðlaun.

Hægt er að kjósa Hversu fagurt væri það? hér.

Fyrri greinÞór úr leik í bikarnum
Næsta greinHáspenna-lífshætta í Breiðholtinu