Dúó Fjara gefur út sína fyrstu plötu

Ljósmynd/Aðsend

Hlín Pétursdóttir Behrens, sópransöngkona og Ögmundur Þór Jóhannesson, gítarleikari, skipa dúettinn Dúó Fjara.

Þau tóku upp sína fyrstu plötu í haust og hafa nú hafið söfnun á Karolina Fund til þess að ljúka verkefninu. Platan heitir Náttsöngur og þar flytja þau íslensk uppáhaldsverk og óþekktar perlur, þjóðlög, sönglög og nýjar tónsmíðar.

„Við vildum hafa hreint íslenskt efni á þessari plötu. Ég hef nefnilega tekið eftir því þegar ég hef sungið á tónleikum erlendis að fólk er mjög hrifið af íslensku lögunum og okkur langaði til þess að þessi íslenska áhersla yrði á þessari plötu,“ segir Hlín í viðtali við Austurfrétt en hún starfar nú sem söngkennari austur á Héraði.

Hlín og Ögmundur Þór Jóhannesson hófu samstarf á vormánuðum 2019 og komu fram á nokkrum tónleikum en í lok september lá leiðin í Sköpunarmiðstöðina á Stöðvarfirði þar sem platan var tekin upp.

Hlín, sem er frá Keldnakoti á Stokkseyri, lauk einsöngvaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í óperusöng frá tónlistarháskólanum í Hamborg. Hún starfaði um árabil við ýmis óperuhús í Þýskalandi og kom víða fram sem gestasöngvari þar í landi, auk þess að koma fram á tónleikum og tónlistarhátíðum víða í Evrópu. Hér heima hefur hún einnig sungið ýmis hlutverk og hún syngur einnig reglulega á tónleikum í Þýskalandi og á Norðurlöndunum auk þess að koma fram á kammertónleikum, ljóðakvöldum og kirkjutónleikum hér heima.

Söfnunin á Karolina Fund

Fyrri greinGul viðvörun: Samgöngutruflanir í hríðarveðri
Næsta greinTengivirki Landsnets í gjörgæslu