Listakonan Kristrún Helga Marinósdóttir, betur þekkt sem Dúdda, verður með textílsýningu í Víkinni, veiðihúsi Stangaveiðifélags Selfoss, um komandi helgi.
Ullarverk Dúddu hafa heldur betur slegið í gegn en fyrir utan það að fegra heimilið, þá bæta ullarverkin einnig hljóðvistina.
Útsýnið hvergi betra
„Ég er búin að hugsa í mjög langan tíma að mig langi að vera með sýningu hérna. Ég hef oft keyrt hérna framhjá þessu húsi og mér fannst bara svo fallegt hvernig það er byggt, hvernig munstrið er á húsinu og hvernig það tengist við pallinn. Útsýnið er hvergi betra hugsa ég. Ég hugsaði bara að þetta gæti verið sjúklega flottur staður fyrir listasýningu,“ segir Dúdda í samtali við sunnlenska.is.
Alls verða átján verk til sýnis á sýningunni sem er sölusýning. „Þemað á sýningunni er íslenska flóran. Hún er hérna út um allt og verkin virðast mörg svona vera að leka, sem mér finnst svolítið skemmtileg pæling. Ég er búin að vera að vinna með hringformið lengi og langaði svona aðeins að breyta til.“
Sjón er sögu ríkari
Dúdda vonast til að sem flestir sjái sér fært um að mæta á sýninguna. „Maður er ótrúlega einn alltaf í þessu, ein heima að búa til, þannig að það er rosa gaman þegar maður er búinn að ná að safna upp verkum eins og ég hef gert í vetur. Það er líka þannig að myndirnar sem maður setur á Instagram, þær ná eiginlega ekki að koma því til skila hvað verkin eru fín í raunveruleikanum.“
Dúdda notar einungis íslenska ull í verkin sín. „Ég nota mest kemba en svo er ég líka einnig að nota léttlopa og einband. Það er aðallega grófleikinn í ullinni sem heillar mig. Ég er að vinna þetta inn í net og get gert breiðan þráð úr kembunni.“
Margar hugmyndir í kollinum
Dúdda hefur verið að gera ullarverk frá árinu 2018 og virðist hún aldrei vera uppiskroppa með innblástur. „Ég er með rosalega margar hugmyndir í kollinum. Ég hef aldrei nógu mikla orku og tíma. Ég er náttúrulega að kenna og orkan fer svolítið í það. Mig langar rosa mikið að nota sumarið og pæla í einhverjum svona kulda og jökla verkum. Kannski er bara sniðugt að segja það núna í þessu viðtali, henda því út í kosmosið, svo að ég standi við það,“ segir Dúdda að lokum.
Sýningin í Víkinni stendur frá 30. maí til 1. júní. Sýningaropnun verður á föstudag kl. 17 til 21. Á laugardag verður opið frá 13 til 17 og á sunnudag frá 13 til 15.