Drottningarlegar gúrkusamlokur í bókasafninu

„Enginn venjulegur viðburður“ verður á bókasafni Árborgar á Selfossi laugardaginn 27. ágúst kl. 13:30. Þá mætir Guðrún Ásmundsdóttir leikkona á safnið með pistil sem hún samdi og kallar „Englandsdrottningu“.

„Eins og þeir vita sem fylgjast með mikilvægu fréttunum þá er Elísabet Englandsdrottning orðin níræð og einhverra hluta vegna hefur Sveitarfélagið Árborg ekki enn haldið uppá afmælið hennar en nú gerum við bragarbót og fáum okkur fínan drykk í safninu og kannski „cucumber sandwich“ sem er drottningarlegt á ensku en heitir bara gúrkusamloka á íslensku,“ segir Heiðrún Dóra Eyvindardóttir, forstöðumaður bókasafnsins.

María Lovísa fatahönnuður er nú búsett í Árborg og hún ætlar að sýna fallegu hönnunina sína sem löngu er orðin landsþekkt og gott betur.

Nú er haustið að bresta á og um að gera að nota tækifærið og loka sumrinu með stæl.

Fyrri greinPáll Valur leiðir lista Bjartrar framtíðar
Næsta greinDramatískt gegn toppliðinu