„Draumabyrjun á aðventunni“

Lúðrasveit Þorlákshafnar.

Þann 30. nóvember mun Lúðrasveit Þorlákshafnar halda jólatónleikana Jól við hafið í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn.

„Við höfum um árabil haldið glæsilega nýárstónleika í ekta síðkjólastíl og það hefur tekist vel, en okkur langaði að breyta til í ár og halda veglega jólatónleika í staðinn og úr varð Jól við hafið,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, trompetleikari og stjórnarmeðlimur í Lúðrasveit Þorlákshafnar, í samtali við sunnlenska.is.

„Í þetta sinn breytum við íþróttahúsinu í jólaævintýraland, síðkjólarnir verða á sínum stað og hvergi til sparað að gera viðburðinn sem glæsilegastan,“ segir Ása.

Ása segir að lúðrasveitin hafi ekki haldið jólatónleika í fjölmörg ár. „Við höfum auðvitað komið víða við á aðventunni, spiluðum nokkrum sinnum á jólatónleikunum Hátíð í bæ til dæmis. Svo erum við með mjög skemmtilega hefð þar sem við förum rétt fyrir jól og bönkum upp á hjá velunnurum lúðrasveitarinnar og þegar fólkið kemur til dyra tekur á móti því spilandi lúðrasveit. Þá blásum við bókstaflega jólin inn til fólks,“ segir Ása.

Létt stemning
Að sögn Ásu mun lúðrasveitin fyrst og fremst spila létt lög sem allir kannast við og söngstjörnurnar Guðrún Gunnarsdóttir og Jógvan Hansen munu flytja. „Lúðrasveitin flytur einnig nokkur önnur lög í glæsilegum útsetningum. Jógvan og Guðrún sjá einnig um að kynna og það vita allir sem hafa séð þau á tónleikum að þau eru alveg svakalega fyndin og skemmtileg, svo það er alveg víst að það verður létt stemning með stórkostlegu yfirbragði,“ segir Ása.

„Tónleikarnir eru kl. 15 og eru því mjög aðgengilegir öllum aldri og tilvalinn viðburður fyrir stórfjölskyldur að njóta saman. Þannig er hægt að keyra í björtu, gera góða ferð úr þessu og fá sér gott að borða í leiðinni. Draumabyrjun á aðventunni,“ segir Ása.

Jólaengill frá Þorlákshöfn
„Það er gaman að segja frá því að lúðrasveitin er nú að setja í sölu Jólaengilinn 2019 sem er fallegur órói, með engli sem spilar á trompet. Á næstu árum munu svo fleiri englar líta dagsins ljós sem spila á hin ýmsu hljóðfæri og er þetta því tilvalinn og mjög eigulegur safngripur,“ segir Ása.

„Ágústa Ragnarsdóttir, hornleikari, grafískur hönnuður og myndlistarkona á heiðurinn af hönnuninni og svo var það Katrín Hannesdóttir, bassaklarinettuleikari og eigandi SB skiltagerðar í Þorlákshöfn sem sá um útskurðinn. Þetta er því 100% framleiðsla í heimabyggð,“ segir Ása en hægt er að nálgast jólaengilinn meðal annars með því að senda póst á jolaengill@gmail.com.

„Mig langar að hvetja Sunnlendinga alla til þess að leita ekki langt yfir skammt á aðventunni og koma á þessa einstöku jólatónleika. Þetta verður gefandi upplifun og sennilega ekki betri leið til að hefja aðventuna en einmitt í Þorlákshöfn 30. nóvember. Miðasala er á midi.is,“ segir Ása að lokum

Facebook-viðburður jólatónleikanna

Fyrri greinIcelandic Lava Show hlaut nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar
Næsta grein„Heilsueflandi áhrif kakóbaunarinnar eru ótvíræð“