Kvöldið er fagurt nefnist árleg sumartónleikaröð í Eyvindartungu við Laugarvatn. Nafn tónleikaraðarinnar er sótt til þjóðlagsins alþekkta, Kvöldið er fagurt, en höfundur textans, Ingólfur Þorsteinsson fæddist í Eyvindartungu.
Upphaf tónleikaraðarinnar má rekja til vorsins 2019 er haldnir voru tónleikar Svavars Knúts í gamla fjósinu. Síðan hafa gömlu útihúsin á bæjarhlaðinu verið uppgerð í stórt viðburðarými, vettvang fyrir brúðkaup, veislur, ættarmót og fleira. Árið 2020 hlaut Eyvindartunga styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands til að halda fyrstu tónleikaröðina.
Í sumar hafa Svavar Knútur, tónlistarverkefnið Litir og eðal blúsbandið Johnny and the Rest komið fram á tónleikaröðinni. Nú er röðin komin að síðustu tónleikum sumarsins og þar koma fram Dóra & Döðlurnar, Hjördís Katla og landsþekktur leynigestur.
Tónleikarnir verða föstudagskvöldið 29. ágúst, kl. 20:00 í Eyvindartungu við Laugarvatn. Frítt inn og allir velkomnir.
Dóra & Döðlurnar er gelluhljómsveit er spilar lög um ástina, ástarsorg og allt það tengt því að vera gella á unglingsaldri. Hljómsveitina er hægt að finna bæði á Spotify og helstu samfélagsmiðlum.

Hjördís Katla er nemandi á lokaári við Menntaskólann að Laugarvatni. Hún fékk verðlaun fyrir skemmtilegasta atriðið á Blítt og Létt, söngkeppni ML síðastliðið haust. Hún flutti lagið Afi eftir Björk Guðmundsdóttur, en með henni í bakröddum voru þeir Daníel Aron Bjarndal Ívarsson og Ragnar Dagur Hjaltason.
Það er spennandi kvöld framundan í Eyvindartungu en eins og fyrr var sagt mun landsþekktur leynigestur einnig koma fram á tónleikunum.
