Djassað með sterkum litum

Hallur Karl Hinriksson, myndlistarmaður frá Selfossi, opnar sýningu í Forsalnum í Gallerí Fold á Rauðarárstíg í dag kl. 17. Sýningin stendur út mánuðinn.

Hallur Karl tekur á móti okkur í gömlu húsi á Eyrarbakka þar sem hann bæði býr og vinnur. Hann býður gott kaffi og gulrætur úr garði nágranna. Tilefnið er stór sýning sem Hallur mun opna nú á fimmtudaginn á verkum sem hann hefur verið að vinna síðustu mánuði. Rúmt ár er síðan Hallur flutti á Eyrarbakka og síðan þá hefur hann málað mjög mikið.

“Ég málaði tvær, þrjár myndir í nóvember, desember á síðasta ári og sá að þarna var komin einhver stefna sem ég var spenntur fyrir – ég hef gaman af því að breyta til, breyta um aðferðir og halda mér ferskum og ég hef reynt að forðast að festast í einhverju ákveðnum stíl. En svo málaði ég mynd í janúar af stóru tré og sá þá að þar var komið algjört tilefni til að halda áfram og byggja upp eitthvað safn af myndum sem væri gaman að sýna.”

Og hann er ánægður með afraksturinn.

“Í þessu langa ferli þurfti ég náttúrulega að fjármagna þetta sjálfur með því að selja myndir þannig að það fór svolítið af myndum sem hefði verið gaman að sýna líka en ég hélt eftir öðrum og það er úrval sem ég er mjög ánægður með. Í ferlinu var ég að búa til myndir af trjám, plöntum og dýrum og þar með var stefnan tekin; þetta varð að náttúrusýningu.

Hún er óvenjuleg að því leyti að þetta er fyrsta fígúratífa sýningin mín. Það hafa margir hvatt mig til að fara þá leið í gegnum tíðina; fólk sem man eftir teikningunum mínum frá því í gamla daga og veit að ég hef unnið fígúratíft áður. Mörgum hefur fundist tímabært að ég færi að mála meira fígúratíft. Ég ákvað bara að taka þeirri áskorun og mér fannst virkilega gaman að vinna þessa sýningu.

Abstrakt myndirnar eru erfiðari, maður vinnur alltaf algjörlega út frá hvítu og ekkert er gefið, maður þarf að semja leikreglurnar sjálfur. Í þessu byrjar maður á kolateikningu eða einhverju slíku og fylgir ákveðnum leikreglum og svo er hægt að fara að djassa litina og fara að skemmta sér þegar myndin er komin á strigann.”

Nokkuð langt er síðan Hallur Karl hélt síðast stóra sýningu en sýningin í Galleríi Fold er þó önnur í röðinni á árinu. Hann hélt sýningu á kolateikningum unnum á pappír á Eyrarbakka í vor sem líta má á sem eins konar upphitun, bæði fyrir hann og þá sem kunna að meta myndirnar hans. Allar þær myndir voru af fuglum og auðheyrt er að honum hafi þótt gaman að sýna á Eyrarbakka og þyki vænt um samfélagið þar.

Á nýju sýningunni eru reyndar líka nokkrar fuglamyndir og þrátt fyrir að efnisvalið sé nú annað en síðustu ár bera myndirnar sterk einkenni höfundar síns. Líkt og í abstrakt verkunum eru miklar andstæður í litunum og sterkir, hreinir og skærir litir kallast á við jarðbundna tóna. Eins er áferðin á verkunum einkennandi fyrir Hall Karl. Á þeim er að finna bæði mjög þunnmálaða fleti og svo þykka þar sem unnið er aftur og aftur ofan í sama myndflötinn svo niðurstaðan verður nánast þrívíð eins og verkið sé að teygja sig út úr striganum.

“Ég hef kosið að mála því ég held að það sé hægt að gera hluti með málun sem ég trúi ekki að sé hægt að gera með nokkrum öðrum miðli. Litirnir koma alls staðar að úr heiminum, við erum með evrópska kadmíum-liti, ítalskar jarðir og blýhvítan frá Indlandi. Mér finnst heimur litanna svo skemmtilegur og áhugaverður og mér finnst svo gaman að hugsa til þess að á striganum komi saman litir alls staðar að úr heiminum. Það er glóbal sport að mála. Svo er það línolían og hörinn í striganum – málverkið er í svo miklum tengslum við raunheiminn!

Að fara að velja mér einhverja ákveðna pallettu eða einhverja sneið úr þeirri köku hefur mér alltaf þótt fáránlegt. Ég vil nota alla þá liti sem mér standa til boða og það eru allir litir heimsins. Af hverju þá að fara þá leið að nota bara brúnt og grátt? Mér finnst líka mjög gaman að nota sterkustu litina, t.d. eins og kadmíum-litina sem eru í uppáhaldi hjá mér núna. Sýningin er full af kadmíum-rauðu en kadmíum er frumefni og krabbameinsvaldandi, þótt það valdi engum skaða í málverki og það er blóðlitað. Ég elska kadmíum. Það kemur járnlykt inn í húsið þegar ég mála með kadmíum-rauðu. Litastyrkurinn í því er meiri en í einhverjum tilbúnum þykjustulitum eða blönduðum litum. Hreinn kadmíum-litur er svo sterkur.

Að vinna með þessum sterku litum í bland við þessa natúralísku liti sem eru undirliggjandi hjá mér; grænu litirnir, brúnu og gráu litirnir sem ég nota í bakgrunninn og þess háttar – það verður til svo mikil dýpt í litunum og myndirnar verða svolítið eins og skúlptúrar. Auk þess nota ég mikið pallettuhnífana til að skrapa burtu lit, setja á lit og draga liti ofan í pensilförin til að ýkja þau, þannig að ég nálgast þetta svolítið mikið eins og skúlptúr. Það hef ég gert nokkuð lengi í abstrakt verkunum mínum og ég heimfæri þá aðferð yfir í þessi nýju verk.”

Hallur segir að sú nálgun eiga eiginlega rætur að rekja til þeirra ára þegar hann vann hjá bæði Landgræðslunni og Vegagerðinni. Þá vann hann með stórtækum verkfærum, steypu og mold. “Þetta er reynsluheimur sem ég sæki í og nota í málverkinu, ég er ennþá í svo miklum tengslum við þennan veruleika. Mitt umhverfi og bakland hérna samanstendur af iðnaðarmönnum og veiðimönnum og ég reyni að halda þessari tengingu ferskri.”

Ein af uppáhaldsmyndunum mínum á sýningunni er af hrafni. Ég velti því fyrir mér hvort hrafninn sé lifandi eða uppstoppaður – manngerður eða dýr í villtri náttúru. Hann sprettur fram, ljóslifandi á striganum, en er það ef til vill blekking?

“Þegar maður málar lifandi verur er maður ósjálfrátt að tengjast stærri táknheimi. Hrafninn er sennilega besta dæmið um það en geithafurinn kannski líka. Þetta eru dýr sem eru orðin íkon. Þetta eru dýr sem hafa alltaf verið notuð í myndlist. Hrafninn og geithafurinn hafa verið notuð sem tákn í listum og goðsögum frá örófi alda. Maður er kominn í beint samband við heim mýtólógíunnar og táknfræðinnar og það gerir það að verkum að þessi mótíf vekja alltaf einhverjar spurningar og maður er í raun alltaf í einhverjum díalóg við þessar skepnur og alla þá menningu heimsins sem tengist í gegnum þær. Þegar maður fer inn á þetta svæði þá fara allir þessir hlutir að taka þátt í verkinu.

Ég valdi hrafninn og geithafurinn því ég var mikið að pæla í ásatrú þegar ég málaði þær og setti þá orku í myndirnar. Ég gerði þær eins skrautlegar og ég gat. Þær eru í raun mjög heiðnar, þær eru svo skreytnar og einkennast af mikilli litadýrð. Það finnst mér vera mjög heiðin nálgun. Dýramyndirnar eru allar svona, ég vildi hafa þær allar kraftmiklar og skærar. En hvort hrafninn sé lifandi eða dauður? Það er bara áhorfandans að ákveða það.”

Á sýningunni eru einnig fjölmargar myndir af ýmsum plöntum.

“Þegar ég byrjaði að velja mótíf í plöntumyndirnar þá langaði mig fyrst til að mála þekkta innflytjendur, svo sem lúpínuna, rabbarbarann og njólann. Rabbarbarinn og njólinn eru plöntur sem eru fluttar hingað til manneldis, lúpínan af allt öðrum ástæðum. Þetta eru plöntur, ja alla vega sérstaklega njólinn og lúpínan, sem skiptar skoðanir eru um. Fólk er annað hvort algjörlega með eða á móti. Mér finnst það athyglisvert.

Ég hef ákaflega gaman að ýmsum þversögnum þegar kemur að náttúrunni. Að fara heim til virkjanasinnans og sjá eftirgerð af Fjallamjólkinni eftir Kjarval upp á vegg hjá honum finnst mér mjög áhugaverð upplifun. Það sama á við þegar ég hlusta á manninn sem fer með ættjarðarljóð en er svo alveg sama þótt það sé reist olíuhreinsunarstöð í næsta firði. Þetta meikar engan sens.

Þegar ég er að vinna með landslag er stutt í þessar pælingar. Það er ekki bæði sleppt og haldið. En svo eru þetta líka bara stúdíur; Mér finnst gaman að teikna og pæla í litunum. Græni liturinn varð eðlilega ofboðslega dýnamískur og ég fór að kynnast þeim litatónum nánar og eins og alltaf þegar ég mála varð þetta persónulegt ferðalag.”

Þótt upphaflega hugmyndin væri að mála plöntur sem væru innflytendur féll Hallur frá henni og ákvað að mála líka plöntur sem eru eins íslenskar og hægt er að hugsa sér og partur af þjóðarsálinni, svo sem mjaðurt. “En þegar öllu er á botninn hvolft er lúpínan auðvitað orðinn partur af íslenskri náttúru og íslensku landslagi fyrir löngu síðar,” bætir Hallur við.

“Lúpínan er þó orðin að táknmynd um ýmislegt annað í samfélaginu líka og kannski fá þá sumir tækifæri til að vera stikkfrí og geta talað illa um lúpínuna þegar þeir eru í raun að tala um eitthvað allt annað eins og t.d. þjóðernishyggju. Ég velti þessu þó ekki beinlínis upp í myndunum sjálfum – þetta eru bara myndir af plöntum – en viðbrögðin geta verið áhugaverð og maður pælir alltaf í samtali þeirra sem horfa á þær því það verður alltaf til þessi díalógur – annað hvort innra með fólkinu eða upphátt í samtali um myndirnar og þessar spurningar eru á næstu grösum þegar við erum með stóra mynd af lúpínu fyrir framan okkur.”

Viðtal: Margrét Tryggvadóttir.

Fyrri greinÓskar ráðinn á Landspítalann
Næsta greinÁrborg lokaði sumrinu með sigri