Hr. Eydís gefur út nýja ábreiðu í dag. Þær koma reyndar yfirleitt á föstudögum, en af því það er frídagur á morgun þá bregður bandið aðeins út af vananum.
Lagið að þessu sinni er eitt af þeim alstærstu frá þessum dásamlega áratug, en lagið var í einni vinsælustu ´80s myndinni. Já, það er lagið (I’ve Had) The Time of My Life með þeim Bill Medley og Jennifer Warnes.
Það öfðu fáir trú á myndinni á sínum tíma og hvað þá þessu lagi. Þekktustu söngvarar Bandaríkjanna höfðu lítinn áhuga, enda héldu margir að Dirty Dancing væri „blá“ vegna titilsins. En að lokum fundust söngvarar og myndin og lögin í myndinni komu loks út árið 1987. Dirty Dancing varð súpervinsæl og lögin í myndinni hljómuðu út um allt.
„Ég fór á mitt fyrsta deit árið 1987 og ákveðið var að fara á Dirty Dancing. Stærsti salur Regnbogans á Hverfisgötunni var stútfullur og svakalegt fjör. Það varð nú ekkert úr frekara sambandi við dömuna sem ég bauð á myndina, en auðvitað varð þetta samt alveg ógleymanlegt,“ segir Örlygur Smári söngvari og gítarleikari Hr. Eydís og brosir að minningunni.