Deitað á Dirty Dancing

Hr. Eydís í hljóðstofu sinni á Youtube.

Hr. Eydís sendir frá sér nýtt ´80 s föstudagslag í dag og eins og svo oft áður er lagið úr vinsælli kvikmynd. Að þessu sinni er það lagið Hungry Eyes úr kvikmyndinni Dirty Dancing frá 1987.

Flytjandi lagsins er Eric Carmen sem hafði á þessum tíma átt misjöfnu gengi að fagna. Hann hafði samið og flutt eitt vinsælt lag, All By Myself, sem síðar reyndar varð algjör megahittari í flutningi Celine Dion.

En Carmen var eitthvað tregur í taumi og vildi alls ekki gera lag sem færi í bíómynd, hann hafði af því slæma reynslu og sagði bíómyndalög aldrei verða almennilega vinsæl. Við vitum reyndar ekki á hverju hann byggði þessa fullyrðingu sína, því mörg af vinsælustu lögum þessar stórkostlega áratugar voru einmitt úr bíómyndum. Kannski áttaði hann sig á því á endanum vegna þess að hann lét loks til leiðast og bæði bíómyndin og lagið Hungry Eyes urðu svakalega vinsæl.

Lagahöfundar Hungry Eyes, þeir DeNicola og Previte sömdu annan smell fyrir sömu bíómynd, lagið (I´ve Had) The Time Of My Life sem varð jafnvel enn vinsælla.

„Ég fór 16 ára á mitt fyrsta „date“ á kvikmyndina Dirty Dancing í Regnboganum við Hverfisgötu. Leist satt að segja lítið á myndina, Dirty Dancing þótti ekki svalt fyrir ungan strák sem hlustaði mest á Van Halen. En ég var pínu skotinn í stelpunni svo ég lét mig hafa það að fara á myndina sem hún valdi. Ég náði þó illa að fylgjast með því ég var svo mikið að hugsa um hvernig ég ætti að fara að því að halda í höndina á henni. Ég varð því að sjá myndina aftur síðar, svona til að ná innihaldinu,“ segir Örlygur söngvari og gítarleikari Hr. Eydís og hlær dátt að minningunni.

Rás Hr. Eydís á Youtube

Hr. Eydís á Instagram

Hr. Eydís á Facebook

Fyrri greinMiðbæjarkötturinn Snuðra heillar alla
Næsta greinÁrborg fékk viðurkenningu fyrir metnaðarfullar umbætur í stafrænni þjónustu