Dagskrá í öllum regnbogans litum

Dagana 7.-10. október næstkomandi verður Regnboginn, hin árlega menningarhátíð Mýrdælinga, haldin.

Dagskráin er glæsileg og verða viðburðir fyrir alla fjölskylduna, auk þess sem fyrirtæki taka einkar vel á móti gestum og gangandi.

Á fimmtudagskvöld mun hinn eini sanni Magnús Kjartansson taka flygilinn á Hótel Vík til kostanna og hefst viðburðurinn kl. 21. Þar er frítt inn.

Á föstudag verður kvölddagskrá í íþróttahúsinu, kl. 19 verður boðið upp á alþjóðlegt matarsmakk og kl. 20 koma Unnur Birna & Pétur Örn fram ásamt hljómsveit á kvöldvöku. Eftir hana trúbbar Pétur á Smiðjunni til lokunar.

Laugardagurinn er fjölbreyttur en meðal annars verður sirkusnámskeið í boði Umf. Kötlu, barnaskemmtun í íþróttahúsinu með Lalla töframanni og trúðnum Wally, vöfflukaffi og endurokeppni. Á laugardagskvöldið verða snillingarnir Magnús & Jóhann með tónleika í Leiksskálum klukkan 20:00 og síðan verður dansleikur með Gunna Óla og hljómsveit.

Á sunnudaginn er hátíðarkaffi á Hótel Kríu og Lay Low verður með notalega tónleika í Víkurkirkju klukkan 17, þar sem frítt er inn meðan húsrúm leyfir.

Fyrri greinEndurskoðuð stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Dyrhólaey
Næsta greinBjörn tekur við kvennaliði Selfoss