Daði og Gagnamagnið verða fulltrúar Íslands í Eurovision 2021

Daði og Gagnamagnið. Ljósmynd: RÚV/Baldur Kristjánsson

Tónlistarmaðurinn Daði Freyr Pétursson keppir fyrir Íslands hönd í Eurovision-söngvakeppninni í Rotterdam í maí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu, sem leitaði til Daða Freys og samþykkti hann að semja lag í keppnina.

Lagið Think About Things með Daða og Gagnamagninu sigraði Söngvakeppnina 2020 en vegna COVID-19 var hætt við Eurovision sem átti að fara fram í Rotterdam. Lagið sló þó heldur betur í gegn en það hefur nú þegar þetta er skrifað verið spilað tæplega 55 milljón sinnum á Spotify. Lagið vann áhorfendaverðlaunin í mörgum löndum Evrópu, m.a. í öllum hinum norrænu löndunum.

Daði Freyr segist mjög spenntur fyrir því að fá að standa á Eurovision-sviðinu.

„Ástæðan fyrir því að ég keppti í Söngvakeppninni 2020 var til að prófa að fara með Gagnamagnskrökkunum að upplifa Eurovision innan frá. Við stefndum alltaf að því að sjá hversu langt við gætum komist í keppninni og það verður eins á næsta ári. Allt Gagnamagnið verður með. Aðalatriðið í þessu er að það verði gaman en ég held að það sé mest gaman að vinna. Nú vona ég bara að það verði haldin alvöru keppni,“ segir Daði Freyr.

En er hann búinn að semja lagið?

„Ég er kominn með nokkrar pælingar varðandi lagið en ekkert sem er ákveðið. Ég veit reyndar hvernig tónlistarmyndbandið verður og er með nokkur lykilatriði sem þurfa að koma fram í sviðsetningunni, svo ég mun semja lagið í kringum það. Ég mun reyna að semja lag sem passar við atriðið en ekki öfugt. Júró er alveg sér dæmi. En þetta verður stuðlag, það er alveg á hreinu. Allt sem er gaman!“

Eurovision-söngvakeppnin verður í Rotterdam 18., 20. og 22. maí 2021.

Fyrri greinAlls 35 sunnlensk fyrirtæki á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki
Næsta greinÞrír Sunnlendingar stefna á Ólympíuleikana