Corpo di Strumenti með fjölbreytta dagskrá

Eftir fjórar vel heppnaðar vikur í Skálholti er það hópurinn Corpo di Strumenti sem lýkur Sumartónleikum í ár. Tónleikaröð þeirra hefst í kvöld, fimmtudagskvöld.

Hópurinn er skipaður frönskum tónlistarmönnum sem spila á bassahljóðfæri og sembal, auk Steinunnar Arnbjargar Stefánsdóttur sellóleikara.

Í þetta skiptið býður bassahópurinn fiðluleikurunum Hélène Houzel og Patrick Bismuth til liðs við sig. Corpo di Strumenti breytist þar með í fiðlukonsort, en frum-tríóið starfar jöfnum höndum á Íslandi og í Frakklandi. Þar koma þau Steinunn, Mathurin og Brice reglulega fram á ýmsum hátíðum, en þeirra helstu hugðarefni eru brennipunkturinn á mörkum endurreisnar og barokks, sem og frönsk barokktónlist.

Tónleikaröð þeirra á Sumartónleikum hefst í kvöld, fimmtudaginn 31. júlí kl. 20 með tónleikunum Tveggja manna tal, en þar ræða semballinn og pikkolósellóið saman, stíga dans og glíma. Allt er leyfilegt. Allt sem þeim kann að liggja á hjarta fær að hljóma í gegnum verk meistaranna Ortiz, Selma og Cabezòn.

Dagskráin heldur svo áfram á laugardaginn með dagskrá sem hefst kl. 14 með fyrirlestri fiðluleikarans Patrick Bismuth um sónötur og partítur Bachs. Eftir fyrirlesturinn, kl. 15, verða tónleikar með yfirskriftinni Djúkbox, þar sem Patrick Bismuth kemur fram. Hann er þó ekki allur þar sem hann er séður. Í erminni geymir hann fiðlupartítur og -sónötur Bachs með tölu, en tónleikagestir fá að panta „lög“ á fóninn.

Að lokum verða tónleikarnir Röddin í strengnum kl. 17, en þar leitar hópurinn að rödd hljóðfæraleikarans. Corpo di Strumenti kafar í sjó madrigalanna í leit að rödd og tóni, svo að hljóðfærin megi syngja. Úr verður hljóðfæraveisla frá sautjándu öld með verkum eftir Bassano, Castello og fleiri.

Tónleikarnir verða endurteknir á sunnudaginn kl. 15.

Fyrri greinÁgúst skoraði og fékk rautt
Næsta greinÓskar er skattakóngur Suðurlands