Byggðasöguhringnum lokað á Hellu

Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri Rangárþings ytra, Sólveig Stolzenwald, Unnur Þórðardóttir, Gunnar Guðmundsson, Ólafur Egill Stolzenwald, Bogi Thorarensen, Ingibjörg Ólafsdóttir höfundur bókarinnar og Harpa Rún Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Það var hátíðleg stund á Hellu þann 15. september þegar gamlir og nýjir Hellubúar fögnuðu útgáfu bókarinnar Hella – þorp í þjóðbraut.

Með bókinni lokast byggðasöguhringurinn, en áður hafa komið út bækur um alla gömlu hreppana sem nú mynda Rangárþing ytra. Segja má að 15. september marki tímamót í sögu staðarins, því þann dag fyrir 93 árum fékk Þorsteinn Björnsson fyrstur verslunarréttindi á staðnum.

Ingibjörg Ólafsdóttir sagnfræðingur hefur unnið að ritun bókarinnar undanfarin ár með ötulli aðstoð Hellubúa og nærsveitunga. Í bókinni birtast ótal ljósmyndir og frásagnir sem safnað hefur verið á undanförnum árum. Þetta markar henni sérstöðu því auk þess að vera byggðasaga um það hvernig þorp verður til streymir sagan beint frá fólkinu sjálfu, sem byggir staðinn og mótar hann. Samhliða sagnfræðilegri umfjöllun birtist mynd af samfélaginu og samhjálpinni sem þar á sér stað. Bæði höfundur og prentsmiður bókarinnar eru gamlir Hellubúar, en Ólafur Stolzenwald og Prentsmiðja Guðjóns Ó sáu um umbrot og prentun. Þessi einstöku tengsl allra hlutaðeigandi við staðinn verða til þess að verkið allt er unnið beint frá hjartanu.

Bókin fæst á skrifstofu Rangárþings ytra, Litlu lopasjoppunni á Hellu, söluskálanum við Landvegamót og Bókakaffinu á Selfossi.

Fyrri greinEnginn sigursöngur í Kórnum
Næsta greinStolið úr ólæstum bílum í Rangárþingi