„Búnir að sakna þess að spila fyrir fólk“

Stuðlabandið.

„Við erum búnir að sakna þess að spila fyrir fólk – og okkur sjálfa,“ segir Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvari Stuðlabandsins, en hljómsveitin býður upp á rafrænt jólapartý í beinu streymi í kvöld.

„Það verður bullandi streymi frá flugsafni Einars Elíassonar á Selfossi og fólk má eiga von á góðri kvöldstund. Það verður boðið upp á skemmtilega tónlist af öllum toga; jólalög, popptónlist og bara fínustu skemmtun. Ég vildi að ég gæti sagt að þetta væri alvöru Stuðlabandsball en fólk í sal er víst stór partur af því, svo við reynum bara að vanda okkur í staðinn,“ segir Magnús Kjartan ennfremur.

Jólahjól Stuðlabandsins hefjast á slaginu 21:45 og verður útsendingin bæði á Facebook og á Youtube.

„Takið fram spilin og jólaölið, hækkið í græjunum og takið sporið. Hlustið og njótið,“ segir Magnús Kjartan að lokum.

Stuðlabandið er búið að stilla upp græjunum í Flugsafni Einars Elíassonar á Selfossflugvelli. Ljósmynd/Stuðlabandið
Fyrri greinGröfutækni bauð lægst í jarðvinnu fyrir RARIK
Næsta greinGul viðvörun um allt land