Bryggjugleði við Herjólfshúsið

Á morgun, laugardaginn 12. júlí, verður sannkölluð bryggjugleði við Herjólfshúsið í Þorlákshöfn.

Þá verður boðið upp á skemmtun fyrir alla fjölskylduna frá klukkan 13 til 16. Meðal þess sem verður á dagskránni er dorgveiðikeppni þar sem veitt verða verðlaun fyrir stærsta fiskinn og humarsmakk í boði útgerðafyrirtækisins Auðbjargar.

Þá geta litlir listamenn föndrað í sérstöku listahorni og hægt verður að fylgjast með handverksfólki við vinnu en í sumar er starfræktur handverksmarkaður í Herjólfshúsinu.

Þetta er þriðja sumarið sem í Herjólfshúsinu er starfræktur handverksmarkaður, kaffihús og upplýsingamiðstöð og er það opið alla daga frá 10:00 – 17:00. Reksturinn er í höndum Handverksfélags Ölfuss og það er því auðvitað handverk frá listafólki í sveitarfélaginu sem er miðpunktur starfseminnar en einnig er til sölu humar, kjötvörur beint frá býli, harðfiskur og söl.

Frekari upplýsingar um dagskrá Bryggjugleðinnar er að finna á Facebooksíðu Herjólfshússins.

Fyrri greinÁfram unnið á óvissustigi
Næsta grein300 þúsund trjáplöntum plantað á Suðurlandi