Bryggjudagar í Þorlákshöfn

Það verður líf og fjör á bryggjunni í Þorlákshöfn um helgina en þá verður efnt til bryggjudaga í Herjólfshúsinu þar sem handverksfólk verður við vinnu.

Þá geta börn málað í listahorninu, hægt verður að fá lánaðar veiðistangir til að dorga og boðið verður upp á humarsmakk og sérstakt vöfflutilboð.

Í Herjólfshúsinu er í annað skipti starfræktur handverksmarkaður, kaffihús og upplýsingamiðstöð. Ákveðið var að prufa þetta síðasta sumar þegar húsið stóð autt vegna siglinga Herjólfs til Landeyjahafnar í stað Þorlákshafnar. Það er félag áhugafólks um uppbyggingu ferðaþjónustu í Þorlákshöfn sem rekur ferðamiðstöðina og er opið alla daga í sumar frá klukkan 10 til 17.

Bryggjuhátíðin stendur yfir á laugardag og sunnudag en dagskráin fer fram milli kl. 14 og 17.

Fyrri greinSlapp lítið meidd úr bílveltu
Næsta greinChrissie Thelma spilar á Sólheimum