Brúarsmiðjan miðlar menningu

Brúarsmiðjan er nýstofnað fyrirtæki á sviði menningarmiðlunar, sem hefur það meginmarkmið að byggja brýr á milli hinna skapandi greina og ferðaþjónustunnar.

Brúarsmiðjan veitir ráðgjöf um menningarmiðlun og hágæðamenningarferðaþjónustu – og miðlar menningu á lifandi, áhugaverðan og vandaðan hátt, með áherslu á upplifun, gagnvirkni og gæði.

Hugsunin er hvort tveggja að veita öðrum ráðgjöf við miðlun menningar og að miðla sjálf, með því að setja upp sýningar, viðburði og ýmsar eftirminnilegar upplifanir.

Framkvæmdastjóri Brúarsmiðjunnar er Margrét Sveinbjörnsdóttir, menningarmiðlari, frá Heiðarbæ í Þingvallasveit. Margrét lauk meistaraprófi í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands haustið 2011 og Brautargengisnámskeiði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands vorið 2012. Síðastliðin sex ár hefur hún starfað sem ráðgjafi og verkefnastjóri hjá AP almannatengslum.

Eins og sannri sveitastúlku sæmir er Margrét alin upp við flest almenn sveitastörf; heyskap, sauðburð, húsverk, skítmokstur, smalamennsku og murtuveiði svo fátt eitt sé nefnt. Margrét er einn af stofnendum Upplits, menningarklasa uppsveita Árnessýslu, og núverandi formaður.

Brúarsmiðjan velur sér samverkafólk eftir þörfum verkefnisins hverju sinni og nýtir þar fyrri reynslu brúarsmiðsins af störfum með grafískum hönnuðum, ljósmyndurum, skiltagerðum, prentsmiðjum, ferðaþjónustuaðilum, lista- og fræðimönnum.

Fyrsta sýningarverkefni Brúarsmiðjunnar var sýning um ylrækt á Íslandi, sem opnuð var í júní sl. í gróðrarstöðinni Friðheimum í Biskupstungum. Þar er tekið á móti ferðamönnum og þeim kynnt tómataræktun og sérstaða íslenskrar ylræktar.