Brú til Borgar um helgina

Menningarhátíðin Brú til Borgar hefst í dag með opnun ljósmyndasýningar og menningarferð um vesturhluta Grímsness.

Ljósmyndasýning Gunnars Jóhannessonar verður opnuð í Gömlu Borg í dag kl. 12.

Kl. 13 verður lagt upp frá Borg í ferð um landnám Gríms. Fararstjóri er Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður, en sagnaþulir eru Þorvaldur Friðriksson fornleifafræðingur og fréttamaður, Birna Lárusdóttir fornleifa- fræðingur og Guðfinna Ragnarsdóttir menntaskólakennari.

Komið verður við á Kiljabergi, Búrfelli, í Tómasarlundi og Öndverðarnesi svo eitthvað sé nefnt.

Dagskráin heldur áfram á morgun þar sem áhersla verður lögð á þjóðlegan fróðleik. Kl. 12:30 verður genginna kynslóða minnst á fornum kirkjustað í Klausturhópum. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup verður m.a. með stutta helgistund.

Kl. 14 hefst málþingið Menningararfur við hvert fótmál í Félagsheimilinu Borg. Þar verður m.a. fjallað um landnámsmenn, fornleifar og keltnesk áhrif í Grímsnesi.