Brekkusöngurinn í beinni á Brúartorgi

Góð stemning á Brúartorgi. Mynd/Sigtún þróunarfélag

Það verður Þjóðhátíðarstemning í miðbænum á Selfossi á sunnudaginn, þegar dagskrá Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum verður sýnd á risaskjá frá kl. 20:00 og fram eftir kvöldi.

Sjálfur brekkusöngurinn hefst að vanda kl. 23:00 og það er Selfyssingurinn Magnús Kjartan sem heldur uppi fjörinu í Eyjum og á risaskjánum á Brúartorgi.

„Við erum með frábæra aðstöðu á torginu fyrir skemmtilegar uppákomur eins og þessa,“ segir Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sigtúns Þróunarfélags. „Við hvetjum bæjarbúa og gesti til að fjölmenna í „tröppusöng“ á Brúartorgi og taka undir með brekkunni í Eyjum. Við sjáum hvernig gengur og hver veit nema þetta verði árlegur viðburður hjá okkur um verslunarmannahelgina,“ segir Vignir.

Að sjálfsögðu verður opið á veitingastöðum og börum fram eftir kvöldi, markísur dregnar út og kveikt á hiturum. Dagskráin hefst sem fyrr segir sunnudaginn 31. júlí kl. 20:00 og stendur til miðnættis.

Fyrri grein„Norska veðurspáin er með þetta rétt“
Næsta greinNóg um að vera á Flúðum um helgina