Borðtennisborð í jólagjöf skilaði Íslandsmeistaratitlum

Heiðar Óli Guðmundsson. Ljósmynd/Úr einkasafni

Heiðar Óli Guðmundsson frá Hellu svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Klárlega meiri jólaálfur. Ég er einn af þeim sem að líður vel á veturna þegar það er rökkur úti og kalt. Aldís Elva, kærastan mín, þarf að halda aftur af mér þegar mig langar að henda upp jólaseríunum mögulega aðeins of snemma árs. Ég væri helst til í að henda þeim upp um leið og það er farið að verða myrkur úti af einhverju viti en við höfum verið að miða við 1. nóvember og þá er ég samt eiginlega alltaf fyrstur upp með seríurnar.

Uppáhalds jólasveinn? Uppáhalds jólasveinninn minn hefur held ég alltaf verið Stekkjastaur. Fyrstur til byggða og byrjar þetta allt. Sé hann alltaf fyrir mér eins og hann er á mjólkurfernunum hjá MS, þar sem fætur hans eru gjörsamlega staurar og ég dáist að honum að ganga alla þessa leið með þessa óvenjulegu fætur sína.

Uppáhalds jólalag? Svona í gegnum tíðina hefur það verið Last Christmas með Wham. Ekkert annað jólalag finnst mér koma jafn mikið með jólin og það, fyrir utan kannski Snjókorn falla með Ladda, mjög tæpt á milli þeirra tveggja. Í dag þá er hins vegar það jólalag sem ég stilli oftast á sjálfur í bílnum Skóinn út í glugga með Ladda. Ég hef alltaf verið mikill Ladda maður, frá því ég vann lítinn mp3 spilara í leik hjá slökkviliðinu og pabbi hlóð eiginlega bara plötunum hans Ladda niður á hann. Þar á meðal voru þessi æðislegu jólalög sem hann hefur gefið út í gegnum tíðina. Skrámur skrifar jólasveininum er eitt af þeim verkum sem fær mann alltaf til þess að hlæja, án undantekninga.

Uppáhalds jólamynd? Það er klárlega Polar Express. Mynd sem við eigum á DVD heima og við Aron bróðir minn horfðum reglulega á þegar við vorum yngri. Ég hef haldið því sem hefð að horfa alltaf á hana fyrir jólin og manni hlýnar alltaf um hjartarætur við að horfa á þessa skemmtilegu mynd.

Uppáhalds jólaminning? Fæ ekki beint eina sérstaka minningu í kollinn heldur verður mér hugsað meira til allra jóladaganna sem mér þykir svo vænt um. Allt svo rólegt, borða afganga og spilað borðspil allan daginn. Mér finnst satt að segja fátt skemmtilegra heldur en að setjast niður í góðra vina hópi og að taka nokkur borðspil. Alltaf svo miklar umræður sem myndast í þeim og það sem ég held að geri þau svona skemmtileg er að fólk leggur frá sér símana og er ekki að gera neitt annað heldur en að vera með fólkinu við borðið og hafa gaman.

Fjögurra ára gamall Heiðar Óli á jólunum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Uppáhalds jólaskraut? Uppáhalds jólaskrautið mitt er einfaldlega bara marglitar jólaseríur. Þær gera allt svo jólalegt, sama hvað er skreytt með þeim þá virkar það bara alltaf. Við Aldís Elva erum einmitt búin að eiga þónokkur samtöl um þessar seríur, því hana langar að skreyta mest allt með warm white jólaseríum á meðan ég vil marglitar. Við finnum vonandi út úr því einn daginn. Annars á mamma líka eitt jólaskraut sem mér þykir mjög vænt um, að miklu leyti held ég að það sé útaf því hvað hún ber miklar tilfinningar til þessa jólaskrauts. Þetta er jólasveinastytta sem Heiðar afi minn, pabbi mömmu, gaf henni rétt áður en ég fæddist og er henni mjög kær.

Minnistæðasta jólagjöfin? Það myndi vera sameiginlega jólagjöfin sem við bræðurnir fengum ein jólin, árið 2012. Þá fengum við hvorki meira né minna en borðtennisborð. Ég skil það ekki enn í dag hvernig mamma og pabbi fóru að því að halda okkur frá því að fara inn í bílskúr í heilan dag án þess að okkur grunaði neitt. Man svo vel eftir því þegar við vorum að opna pakkana þessi jólin, við Aron báðir að bíða eftir því að fá pakkann frá mömmu og pabba en síðan voru allt í einu engir pakkar eftir undir jólatrénu og við ekki enn búnir að fá pakkann frá þeim. Þá allt í einu stóðu þau bæði upp og leiddu okkur inn í bílskúr, kveiktu ljósin og þar stóð heilt borðtennisborð! Við spiluðum alveg stanslaust þessi jólin og lengi eftir það sem varð til þess að við bræður unnum báðir til verðlauna á Íslandsmóti í borðtennis seinna meir.

Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Það eru svona tvær jólahefðir sem hafa verið mér mjög mikilvægar seinustu ár þótt ég hafði misst af hvoru tveggja á einhverjum tímapunkti. Annars vegar er það laufabrauðsgerðin heima sem ég missti af í ár því ég var að spila á jólatónleikum í bænum. Það er alltaf gert á hverju ári einn daginn fyrir jól þar sem vinir mömmu og pabba og börnin þeirra koma til okkar og við gerum öll saman laufabrauð og endum daginn síðan á pizza-veislu. Alltaf mjög gaman. Hins vegar eru það síðan jólatónleikarnir Í stofunni heima, sem við bræðurnir höfum haldið fyrir jól síðustu fimm ár, ásamt vini okkar Óttari Haraldssyni. Tónleikarnir heita þessu nafni því fyrstu tónleikarnir voru gjörsamlega haldnir í stofunni heima á Hellu á Bolöldu 3. Það gekk svo vel að við ákváðum að halda aðra tónleika og síðan koll af kolli. Þetta er skemmtileg jólahefð sem mig langar að halda áfram eins lengi og áhugi er hjá fólki að koma og hlusta á okkur spila nokkur vel valin jólalög ásamt góðum gestum.

Hvað er í jólamatinn? Það er þriggja rétta á aðfangadag og hefur alltaf verið svo lengi sem ég man eftir mér. Í forrétt er humar í villisveppasósu sem mamma gerir og tartalettur. Tartaletturnar komu inn sem forréttur því að Aroni bróðir mínum fannst humarinn ekki góður þegar hann var yngri. Hann er farinn að borða hann í dag en við höldum samt áfram að gera tartaletturnar því það er bara orðinn hluti af þessu öllu saman. Í aðalrétt er hinn sívinsæli hamborgarhryggur með brúnuðum kartöflum og soðsósu. Ég gæti held ég borðað endalaust af þessum blessaða mat. Í eftirrétt er síðan heimalagaður ís sem pabbi gerir með heitri mars-rjómasósu. Hann gerir alltaf Toblerone ís sem er alveg ómissandi og síðan einhvern annan ís með sem er ekki alltaf sá sami.

Ef þú ættir eina jólaósk? Ef ég fengi eina jólaósk þá væri óskin algjörir draumórar en það má láta sig dreyma. Óskin væri sú að ég myndi vilja fá að halda jólin einu sinni með öllum ömmum mínum og öfum. Þrjú af þeim fjórum dóu áður en ég man eftir mér og ég fékk því lítið að kynnast þeim. Það hefði verið gaman að taka jólin með þeim og fá að heyra sögur, borða góðan mat og hlæja saman. Hins vegar erum við rosalega heppin með hana ömmu Möddu sem hefur verið með okkur flest jólin sem ég man eftir. Að vísu er hún á Þórshöfn hjá systur pabba í ár en maður getur ekki alltaf fengið það sem maður vill. Ef þessi jólaósk yrði ekki samþykkt þá myndi ég mögulega óska mér þess að jólafríið yrði tvöfalt lengra, til þess að maður geti notið sín lengur og tekið fleiri borðspil með fjölskyldu og vinum.

Fyrri greinLélegar Netflix jólamyndir hefð um jólin