Bókauppboð á bókamarkaðnum

Uppboð á gömlum bókum verður haldið á bókamarkaðnum í Leikhúsinu á Selfossi laugardaginn 6. ágúst kl. 14. Lágmarksboð í marga gripi er undir 1000 krónum.

Þar verða yfir 100 gripir boðnir upp á eldfjörugu uppboði undir stjórn Þorsteins Þorsteinssonar en bóksalinn Bjarni Harðarson kynnir uppboðsgripina. Greiðsla við hamarshögg.

Við val á bókum til uppboðs er lögð áhersla á 20. aldar gripi sem margir eru að leita eftir en minna í boði af fyrri alda prenti. Lágmarksboð í marga gripi er undir 1000 krónum.

Meðal bóka sem hér verða í boði má nefna rit eftir Halldór Laxnes, Guðrúnu frá Lundi, Stein Steinarr, Þuru í Garði, Jónas Svafár, Þórarinn Eldjárn, Arnald Indriðason, Huldu og mörg fleiri öndvegisskáld þjóðarinnar. En þarna verða líka öndvegisrit eins og Íslenskir sjávarhættir, Söguatlas, Saga Selfoss, Merkir Mýrdælingar og margt fleira.

Þá verður Bókamarkaðurinn í Leikhúsinu við Sigtún opinn um helgina frá föstudegi til sunnudags, 12-18. Þegar uppboðinu sleppir eru allar bækur þar á 500 kr./stk. og gildir um jafnt nýjar sem notaðar. Fyrstir koma, fyrstir fá.

Hér er listi yfir bækurnar

Fyrri grein„Draumurinn er að gera uppáhaldsmynd einhvers“
Næsta greinUMFÍ vill stofna lýðháskóla á Laugarvatni