Bókauppboðið tókst vel – Plöntubókahelgi framundan

Fjölmenni var á fornbókauppboði sem haldið var í Leikhúsi Hveragerðis við Austurmörk síðastliðinn laugardag. Uppboðið var hluti af starfssemi bókamarkaðar sem starfræktur er í Leikhúsinu allar helgar í sumar og þar er opið fös.-sun. frá 12-18.

Á uppboðinu voru boðnir upp um 60 gripir á verðbilinu frá 3 – 350 þúsund krónur og seldist um þriðjungur bókanna sem var mun meira en vonir stóðu til. Meðal uppboðsgripa voru nokkrar bækur fyrri alda úr Hólaprenti, Leirár og Viðeyjar en einnig síðari tíma fágæti eins og Harmsaga Birkilands og Björn og Sveinn eftir Megas.

Ráðgert er að annað sambærilegt uppboð fari fram síðustu opnunarhelgi markaðarins sem er um miðjan ágústmánuð. Uppboðið var undir styrkri stjórn Önnu Birnu Þráinsdóttur sýslumanns en henni til aðstoðar voru bóksalar af Bókakaffinu á Selfossi.

Komandi helgi verður kynning á plöntubókum og garðræktarritum á bókamarkaðinum en þá munu garðyrkjukonurnar Hildur Hákonardóttir og Auður Ottesen mæta á svæðið og verða til skrafs og ráðagerða við gesti frá kl. 14-16 alla dagana. Utan við leikhúsið verður sett upp tjald með sýningunni Plönturnar í bókinni og Hildur Hákonardóttir kynnir eldhúsgarðinn fyrir gestum.

Fyrri grein„Hrikalega dýr stig að tapa“
Næsta greinUnglingadeildin Ýmir fékk stóra ávísun