Bókarkynning með tónlistarívafi

Einar Lövdahl. Ljósmynd/Aðsend

Á sumardaginn fyrsta, 25. apríl kl. 16:00, verður Einar Lövdahl í Bókakaffinu á Selfossi og kynnir þar nýja bók sína Gegnumtrekk auk þess sem hann flytur nokkur frumsamin lög.

Ætlunin er að fagna sumrinu á notalega hátt, með góðan kaffibolla í annarri hendi og fallega bók í hinni. Aðgangur er ókeypis.

Einar Lövdahl sendi frá sér skáldsöguna Gegnumtrekk í síðasta mánuði. Í upphafi dagskrár mun Einar segja frá tilurð bókarinnar og lesa upp úr henni valinn kafla. Þá ætlar hann að grípa í gítar og flytja frumsamin lög með líflegum og grátbroslegum textum sem kallast á við efni bókarinnar eða rithöfundastarfið. Að loknum tónleikum geta áhugasamir nælt sér í áritað eintak af Gegnumtrekk.

Gegnumtrekkur er hnyttin og heiðarleg skáldsaga um stritið við að standa í lappirnar í vindasamri tilverunni. Sagan segir frá Aski, ungum manni sem virðist óttast lífið sjálft og ætlar að stinga af og byrja upp á nýtt. Flýja óþægileg samskipti, kvíðvænlegar áskoranir hversdagsins og stóru spurningarnar í lífinu. En það virðist vera sama hvert hann fer, alltaf er mamma hans – sem hann hefur ekki hitt í meira en áratug – með í för.

Um er að ræða fyrstu skáldsögu Einars, sem bar sigur úr býtum í handritasamkeppni Forlagsins, Nýjar raddir, árið 2021 með smásagnsasafninu Í miðju mannhafi.

Einar sendi frá sér sólóplötuna Tímar án ráða árið 2013 og hefur upp frá því látið að sér kveða sem textahöfundur. Hann hefur starfað sem slíkur með listafólki á borð við Jón Jónsson, GDRN, Helga Björns og Jóhönnu Guðrúnu. Þá er hann annar helmingur LØV & LJÓN sem gaf út plötuna Nætur árið 2019.

Fyrri greinEgill tók gullið á Mjölnir Open
Næsta greinNettó úti í skógi