„Bókarí” í Hveragerði

Það er mikið um að vera í Bókasafninu í Hveragerði á Safnahelgi um helgina.

Í dag kl. 16 opnar „Bókabúgí“ Málfríðar Finnbogadóttur, verkefnastjóra Bókasafnsins á Seltjarnarnesi. „Bókabúgí“ er sýning á listaverkum sem Málfríður gerði úr bókum sem höfðu verið afskrifaðar af einhverjum ástæðum, s.s. vegna slits eða óhreininda eða vegna þess að safnið hafði ekki lengur þörf fyrir mörg eintök af viðkomandi titli. Málfríði fannst leitt að henda öllum þessum bókum, svo hún ákvað að endurnýta þær, gera eitthvað skemmtilegt úr þeim, og úr varð þessi sýning. Sýningin stendur út nóvembermánuð.

Á morgun, laugardaginn 5. nóv. kl. 14 verður „Bókakaffi“ í húsnæði Almars bakara í Sunnumörkinni. Þar lesa rithöfundarnir Þórarinn Leifsson og Stefán Máni úr nýju bókunum sínum Götumálarinn og Feigð. Gestir geta fengið sér kaffisopa á meðan, en Almar bakari verður einmitt með kynningu og tilboð á sínum frábæru tertum.

Á laugardag og sunnudag kl. 13-17 verður safn- og sýningargestum gefnar bækur og er það líka tilraun til endurnýtingar bóka. Bækurnar sem gefnar eru eru valdar úr bókagjöfum til safnsins eftir að nýtt hefur verið úr þeim það sem þarf í safnið. Þeir sem þiggja bækur þurfa þó að leggja eitthvað af mörkum, þ.e. myndskreyta bækurnar. Síðan verður tekin mynd af skreytingunni og myndirnar sýndar seinna á safninu.

Bókasafnið er opið föstudag kl. 13-19, laugardag kl. 11-17 og sunnudag kl. 13-17.

Næsta prjónakaffi á bókasafninu er á mánudagskvöld, 7. nóvember kl. 20-22.

Fyrri greinFlóðahætta ógnar íbúum
Næsta greinVestfirðingar og Sunnlendingar stinga saman menningarnefjum