Bókamessa við upphaf Kótelettu

Fjórir rithöfundar kynna splunkunýjar bækur í Sunnlenska bókakaffinu kl. 20:30 í kvöld, við upphaf bæjarhátíðarinnar Kótelettunnar.

Þeir sem lesa eru Ari Jóhannesson, Óttar Guðmundsson, Guðmundur Brynjólfsson og Bjarni Harðarson. Kynningin fer fram í Bókakaffinu á Austurvegi 22 og hefst klukkan 20:30. Húsið verður opnað klukkan 20.

Ari Jóhannesson læknir les úr sinni fyrstu skáldsögu Lífsmörk, en hún kom út nú í vor. Ari hlaut árið 2007 Tómasar Guðmundssonar verðlaunin fyrir ljóðabókina Öskudaga.

Óttar Guðmundsson geðlæknir og rithöfundur hefur sent frá sér bókina Þarf ég að deyja ef ég vil ekki lifa en bók þessi fjallar um sjálfsvíg, bæði sögulega og frá sjónarhóli læknis.

Gosbrunnurinn nefnist skáldsaga Guðmundar S. Brynjólfssonar rithöfundar á Eyrarbakka sem hefur áður skrifað leikrit og barnabækur sem hlotið hafa afar góða dóma og verðlaun.

Bókin Mörður er fjórða skáldsaga Bjarna Harðarsonar bóksala en bókin er nýkomin úr prentun. Þar hefur orðið sú persóna í Njálssögu sem hlotið hefur heldur illa dóma með þjóðinni í þúsund ár.

Það eru Sunnlenska bókakaffið og Undirbúningshópur um Bókabæina Austanfjalls sem standa að kynningunni.

Fyrri greinSigursteinn og Krókus sigruðu í A-flokki
Næsta greinMyndstef heiðrar Knút