Bókakaffið í stórsókn í bókaútgáfu

Bókakaffið á Selfossi gefur út fimmtán bækur fyrir komandi jólavertíð. Þar af eru fimm íslenskar skáldsögur, þrjár barnabækur og þrjár ljóðabækur.

Þá eru ótaldar söguleg króníka úr Biskupstungum, þjóðsagnabók frá Orkneyjum, myndlistarbók rangæskrar alþýðulistakonu og gamansögur úr Árnesþingi.

Bækur Bókakaffisins eru allar prentaðar í Odda en umbrot, hönnun og textafrágangur fer að mestu fram í héraði. Höfundar koma víðsvegar að.

Margþætt bókastarfsemi
Í fyrra gaf Bókakaffið út níu bækur og höfðu þá aldrei verið fleiri. Samtals eru titlar útgáfunnar nú orðnir 40 talsins. Útgáfustarfið er rekið af sama félagi og rekur Bókakaffið en gefið er út undir tveimur merkjum. Þar er annars vegar um að ræða Sæmund sem er hefðbundið útgáfufyrirtæki og hins vegar Bókasmiðjuna þar sem áhættu við útgáfu er dreift milli höfundar og útgáfu.

Því fylgja margir kostir að reka saman bókaútgáfu og bókaverslun. Þannig eru tengsl útgáfunnar við markaðinn og væntingar hans meiri en ella væri og með margþættum rekstri tekst að skapa rekstrarhæfa einingu. Auk þess að selja nýjar bækur og gefa út bækur rekur Bókakaffið umfangsmikla endursölu á notuðum bókum, bæði innan verslunarinnar og á veraldarvefnum. Þá tekur Bókakaffið þátt í klasaverkefninu Bókabæirnir austanfjalls sem nær til lágsveita Árnessýslu.

Fimmtán bækur og einni betur
Skáldsögurnar sem nú koma út eru í útgáfuröð: Gosbrunnurinn eftir Guðmund S. Brynjólfsson, Mörður eftir Bjarna Harðarson, Afdalabarn sem er endurútgáfa á bók eftir Guðrúnu frá Lundi, Leið eftir Heiðrúnu Ólafsdóttur og Sögur úr Vesturbænum eftir Matthías Johannessen. Fjórar af þessum bókum eru þegar komnar í verslanir og hafa hlotið afbragðs viðtökur en bók Matthíasar er væntanleg í næsta mánuði.

Barnabækurnar sem Bókakaffið gefur út eru Mía kemur í heiminn eftir Lovísu Maríu Sigurgeirsdóttur, Hatturinn frá Katalóníu eftir Ólöfu Völu Ingvarsdóttur og Jólasaga úr Ingólfsfjalli eftir Maríu Siggadóttur.

Ljóðabækurnar eru eftirtaldar: Músin sem gelti á alheiminn eftir Russel Edson í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar, 52 sonnettur eftir Þórð Helgason og Ódáinsepli eftir Margréti Þ. Jóelsdóttur.

Orkneyskar þjóðsögur komu út á liðnu hausti en þeim safnaði Tom Muir. Þýðandi er Jóna Guðbjörg Torfadóttir. Um liðna helgi kom úr prentun bókin Gamansögur úr Árnesþingi sem Jóhannes Sigmundsson hefur tekið saman. Þá eru væntanlegar úr prentun Króníka úr Biskupstungum eftir Bjarna Harðarson og Teikningar Kristínar Skúladóttur sem er myndlistar- og þjóðháttarit úr Rangárþingi.

Auk þessa sér Bókakaffið um dreifingu á bókinni Húsið á Eyrarbakka eftir Lýð Pálsson safnvörð, en Byggðasafn Árnesinga gefur út.

Eigendur Bókakaffisins eru hjónin Elín Gunnlaugsdóttir og Bjarni Harðarson. Auk þeirra starfa við fyrirtækið Lilja Magnúsdóttir afgreiðslumaður, Guðrún Eik Sveinsdóttir afgreiðslumaður og Guðjón Ragnar Jónasson markaðsstjóri.

Fyrri greinHamar fékk skell á heimavelli
Næsta greinHeimsins besta hrákaka