Bókabær í undirbúningi

Nú er nýlokið umfangsmikilli kynningu á Suðurlandi undir heitinu „Leyndardómar Suðurlands“. Einn leyndardómur sem þar var afhjúpaður var undirbúningur að stofnun „Bókabæjar fyrir austan fjall“.

Árborg, Flóinn, Hveragerði og Ölfus standa saman að þessum undirbúningi og fengu Strætó í lið með sér til að hafa bækur, með kynningu á verkefninu, í bílunum hjá sér meðan Leyndardómarnir stóðu yfir og fyrir áhuga og velvilja vagnstjóranna verða bækurnar eitthvað áfram í vögnunum.

Bókabæir eru nú til um allan heim og eiga það sameiginlegt að vera lítil bæjarfélög eða þorp, sem vilja skapa sér sérstöðu með verslun og viðskiptum með bækur, notaðar og nýjar. Sammerkt öllum þessum bæjum er umtalsverð atvinnusköpun, tengslanet ferðaþjónustuaðila og virkt alþjóðlegt samstarf.

Enginn bókabær er á Íslandi en í tilkynningu frá undirbúningshópnum segir að byggðin hér austanfjalls hafi einstakt tækifæri. Á Selfossi er rekin stærsta netbókaverslun landsins, á Eyrarbakka er nýstofnað Konubókasafn og Hveragerði á sér forna frægð sem skáldabær sem vaxandi áhugi er á meðal bæjarbúa. Flóamannasaga og fleiri Íslendingasögur eiga leiksvið sitt um Ölfus og Flóann. Svæðið á sér forna og nýja sögu sem tengist bókaútgáfu, skáldum, skólastarfi og handritavarðveislu. Svo hópurinn telur sig hafa gott land til að byggja á.

Formleg stofnun Bókabæjarins fyrir austan fjall verður í júní á þessu ári og eru áhugasamir hvattir til að fylgjast með og ljá hugmyndinni lið sitt.