Bók sem virkjar hugmyndaflugið

Ólöf Haraldsdóttir, frá Laugardælum í Flóa, sendi frá sér sína fyrstu bók nú fyrir jólin. Bókin heitir "Í dag" og er hugmyndabók fyrir alla daga ársins.

Bókin er þó ekki aðeins nothæf á næsta ári heldur líka öll árin þar á eftir. Hún nýtist aftur og aftur.

„Það má bæta í hana eigin hugmyndum eða nota hana sem minningabók, dagbók eða bara hvað sem er. Hugmyndin var bara að hún gerði lífið svolítið skemmtilegra og kannski að hún myndi virkja hugmyndaflugið svolítið,“ sagði Ólöf í samtali við sunnlenska.is.

Bókin er öll handskrifuð og teiknuð og síðan skönnuð inn. Verkefnið var styrkt af Evrópu ungafólksins en Ólöf gefur hana sjálf út.

„Völundur Jónsson sá um að brjóta hana um fyrir mig en ég teiknaði, skrifaði og skannaði sjálf. Dóra systir á líka fjórar myndir í bókinni,“ segir Ólöf. „Ég myndi segja að þetta sé svona gleðibók og alveg tilvalin tækifærisgjöf,“ bætir hún við að lokum.

Fyrri greinGjaldtaka að hefjast í Silfru
Næsta greinViðvörun frá Veðurstofunni