Blómstrandi tónleikahald í Skálholti

Nú er undirbúningur fyrir Sumartónleika í Skálholti kominn á fullan skrið og spennandi að fylgjast með því sem þar er í vændum.

Á sumartónleikunum í ár koma fjölmargir íslenskir listamenn fram en einnig erlendir gestir frá Svíþjóð, Frakklandi og síðast en ekki síst er von á heimsfrægum ungmennakór frá Ástralíu, The Gondwana singers.

Dagskráin í sumar einkennist af því, sem hefur reyndar verið á stefnuskrá Sumartónleikanna frá upphafi, en það er nútímatónlist og nýsköpun og svo á hinn bóginn barokktónlist leikin á upprunaleg hljóðfæri. Staðartónskáld 2017 er María Huld Markan Sigfúsdóttir. Á laugardögum kl. 13 eru einnig haldnir fræðandi fyrirlestrar í Skálholtsskóla um efni sem tengjast tónleikahaldinu.

Sumartónleikaröðin 2017 hefst með tónleikum Hljómeykis þann 8. júlí. Hljómeyki mun þá flytja verkið Ljósbrot eftir John Speight, en hann samdi tónlistina árið 1991, sem þakklætisvott fyrir þann innblástur sem hann fékk frá steindu gluggunum sem Gerður Helgadóttir hannaði fyrir kirkjuna. Með því að flytja þetta verk vilja Sumartónleikarnir minna á myndlistina í Skálholtskirkju sem þarfnast viðgerða og viðhalds. Það á ekki bara við um gluggana heldur líka altaristöflu Nínu Tryggvadóttur.

Á heimasíðu sumartónleikanna má fá nánari upplýsingar um dagskrána. Aðgangur á alla tónleika er ókeypis, en tekið er við frjálsum framlögum við innganginn. Að hlýða á tónleika í Skálholtskirkju getur gert heimsókn um Suðurland að ógleymanlegri tónlistarupplifun.

Fyrri greinGerðu góða ferð til Vestmannaeyja
Næsta greinBarbára Sól með landsliðinu á NM