Blómstrandi dagar í Hveragerði

Bæjarhátíð Hveragerðisbæjar, Blómstrandi dagar, verður haldin helgina 11. – 14. ágúst.

Fjölmörg fyrirtæki, stofnanir, félög og einstaklingar leggja sitt af mörkum til að gera dagskrá bæjarhátíðinnar fjölbreytta og skemmtilega. Alla helgina verður líf og fjör í bænum fyrir alla fjölskylduna.

Fjölskyldu- og barnahátíð
Fjölbreytt afþreying verður fyrir börnin. Hótel Örk verður með sundlaugarpartý og grillaðar pylsur á föstudeginum. Á laugardeginum verður Ísdagurinn mikli hjá Kjörís en þá er öllum Íslendingum boðið upp á ís í miklum mæli. Skemmtidagskrá verður á sviði þar sem íbúar Latabæjar og fleiri gestir leika og syngja. Á sunnudeginum verður spennandi töframannaskóli fyrir krakkana en þar er hægt að læra að töfra eins og Harry Potter. Einnig verður fjölskyldudagskrá á Fossflöt þar sem Sigga Beinteins og María Björk, töframaðurinn Einar Mikael, Brúðubíllinn og margir fleiri skemmta. Hoppu- og þrautabrautarkastalar verða í gangi alla helgina.

Frábær tónlistaratriði
Tónlistin skipar stóran sess á hátíðinni eins og endra nær. Í leikhúsinu á fimmtudagskvöldinu verður kósýkvöld með Erlu Kristínu (söngur) og Herði (gítar). Á föstudagskvöldinu verða minningatónleikar Bergþóru í Hveragerðiskirkju en þar stíga á stokk Guðrún Gunnars, Svavar Knútur o.fl landsfrægir listamenn. Einnig verða á Hótel Náttúru tónleikar með Bogomil Font og Hákörlunum. Á laugardeginum verður Hljómlistarfélag Hveragerðis með skemmtun tileinkaða Halla og Ladda í Eden aldingarði. Einnig verður Norðurlandamót í Limbó. Kvöldvaka og brekkusöngur verður á Fossflöt á laugardagskvöldinu þar sem Jarl úr Eyjum o.fl tónlistarmenn koma fram. Hljómsveitin Á Móti Sól leikur á blómadansleik á Hótel Örk á laugardagskvöldinu og verður krýnd blómadrottning. Bæjarhátíðinni lýkur á sunnudag með jazztónleikum á Hótel Örk. Jazztríó Páls Sveinssonar heldur tónleika til heiðurs Jan Johansson en hann er einn þekktasti skandinavíski jazztónlistamaður sögunnar.

Hugum að heilsunni
Boðið verður upp á göngu- og hljólreiðaferðir og tvo ratleiki fyrir alla fjölskylduna. Brekkuhlaupin hafa skipað sér sess, en þau eru hlaupin í þremur brekkum bæjarins, Laugaskarðs-, Gos(s)a- og Laufskógarbrekku.

Fjölbreyttar sýningar og markaðir
Ýmsar sýningar verða þessa daga. Veglegur handverksmarkaður verður í grunnskólanum og mega áhugasamir aðilar sem hafa fram að bjóða heimilisiðnað til sölu eða sýningar hafa samband við Ragnhildi blomstrandidagar@gmail.com. Einnig verður grænmetismarkaður á leikhúsplaninu við hliðina á Eden. Á lóð grunnskólans verður Hjálparsveit skáta með sýningu og verður öllum boðið að spreyta sig í kassa- og turnklifri. Í Þorlákssetri, húsi eldri borgara verður sýningin Hveragerðisskáldin. Á Bókasafninu, Sunnumörk, verður hinn árlegi bókamarkaður og myndlistarsýning Sæunnar Freydísar Grímsdóttur. Við opnun sýningarinnar mun Sæunn lesa upp ljóð og Hörður spila ljúfa gítartóna. Í Listasafni Árnesinga stendur yfir sumarsýningin Myndin af Þingvöllum. Verk yfir 50 listamanna sem spanna tímabilið 1782 – 2011.

Bæjarhverfin skreytt
Bæjarbúar leggja hátíðinni lið með því að skreyta sitt hverfi og sinn garð. Litir hverfanna verða þeir sömu og í fyrra. En hverfin skiptast í bleika og græna hverfið, rauða og gula hverfið og bláa og appelsínugula hverfið. Kort yfir litaskiptinguna er að finna á www.blomstrandidagar.is. Verðlaun verða veitt fyrir fallegustu, frumlegustu og mestu skreytingarnar á fjölskylduskemmtun á Fossflöt á sunnudeginum 14. ágúst.

Nánar um dagskrá á heimasíðu bæjarins www.hveragerdi.is

Fyrri greinHekla og Gautrekur heimsmeistarar
Næsta greinÞekktir fyrir glannaskap við akstur