Blómlegt menningarstarf að Kvoslæk

Frá tónleikum þeirra Signýjar og Þóru Fríðu þegar gestir risu á fætur og sungu saman Fyrr var oft í Koti kátt í lokin. Ljósmynd/visithvolsvollur.is

Hjónin Rut Ingólfsdóttir og Björn Bjarnason að Kvoslæk í Fljótshlíð hafa staðið fyrir menningardagskrá síðastliðin sumur sem vakið hafa verðskuldaða athygli.

Boðið hefur verið upp á tónleika af ýmsum toga og hina ýmsu fyrirlestra. Í ár er engin undantekning og er dagskráin kölluð Gleðistundir að Kvoslæk.

Nú þegar hafa verið haldnir tónleikar með þeim systrum Signýju og Þóru Fríðu Sæmundsdætrum og Friðrik Erlingsson flutti fyrirlestur um Sæmund fróða.

Þann 22. ágúst verður svo umfjöllun um Mótun lands við Markarfljót þar sem Jóhann Ísak Pétursson, jarðfræðingur, talar um náttúru landsins í nálægð Markarfljóts og 29. ágúst er fjórði og síðasti viðburðurinn en það eru tónleikar er kallast Dagstund með Schubert og Brahms. Á þeim tónleikum mun Rut Ingólfsdóttir og vinir hennar leika kammerverk eftir J. Brahms og F. Schubert.

Eins og áður sagði hafa þessir viðburðir vakið verðskuldaða athygli og hlutu þau hjón m.a. afreksbikar Búnaðarsambands Suðurlands á svæði Búnaðarfélags Fljótshlíðar á 17. júní hátíð Fljótshlíðinga í ár.

Fyrri greinBeið á bílþakinu í tvo klukkutíma
Næsta greinÁin og fjallið í Listagjánni