
Sunnudaginn 23. nóvember verða tónleikarnir Memento mei eða Mundu mig haldnir í Selfosskirkju klukkan 20.
Flytjendur eru Berglind Björk Guðnadóttir sópran, María Jónsdóttir sópran, Tinna Þorvalds Önnudóttir mezzo-sópran, Jón Sigurðsson píanóleikari og Sigríður Hjördís Önnudóttir flautuleikari.
„Við söngkonurnar köllum okkur Cantus Feminarum og höfum allar lokið burtfarar- og einsöngvaraprófi. Við kynntumst í gegnum söngkennarann okkar Alina Dubic sem starfar við Nýja Tónlistarskólann. Jón Sigurðsson píanóleikari hefur líka fylgt okkur lengi og spilað með okkur öllum bæði í námi og þess utan. Sigríður Hjördís Önnudóttir flautuleikari tengist okkur í gegnum Maríu Jónsdóttur en hún verður líka með einleik á tónleikunum ásamt Jóni,“ segir Berglind Björk Guðnadóttir í samtali við sunnlenska.is.

Allra heilagra messu-tónleikar
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessar þrjár sópransöngkonur leiða saman hesta sína. „Við höfum sungið saman á jólatónleikum og sinfóníutónleikum en þessir tónleikar eru okkar fyrstu skipulögðu tónleikar þar sem við þrjár ráðum alveg ferðinni.“
„Upphaflega ætluðum við að hafa tónleikana í lok október og þá Myrkramessu, þar sem þemað átti að vera mjög dökk og drungaleg lög í anda Halloween en svo gekk það ekki alveg upp. Þá ákváðum við að breyta þessu í allra heilagra messu-tónleika sem er þá aðeins meira trúarleg lög. Það hefur aðeins teygst á dagsetningunum hjá okkur svo þemað á tónleikunum er blanda af þessu tvennu og lögin eru því bland af drunga, sorg og trúarlegri gleði.“
Dýrmætur skóli að koma fram
Berglind segir að þær hafi fengið hugmyndina að tónleikunum í fyrra en ekki náð að útfæra hana á réttum tíma. „Við ákváðum að kýla á þetta í ár. Það er alveg biluð vinna að skipuleggja tónleika ásamt því að vera sjálfur að koma fram, sem er alltaf jafn dýrmætur skóli. Við höfum allar verið með okkar eigin tónleika en það er alltaf meira batterí þegar fleiri koma saman.“
„En þó þetta sé smá strembið ferli þá er þetta ótrúlega gaman og ávanabindandi og við erum strax farnar að skoða næstu verkefni. Við erum búin að æfa stíft og hlökkum mikið til að flytja afraksturinn fyrir Sunnlendinga,“ segir Berglind að lokum.
Auk tónleikanna í Selfosskirkju verða tónleikar 20. nóvember klukkan 20:00 í sal Nýja Tónlistarskólans við Grensásveg 3. Miðasala er á tix.is en það verður líka hægt að kaupa miða við innganginn.