Bjössi Thor og vistvænn lífsstíll

Það verður mikið um að vera á Sólheimum í dag. Björn Thoroddsen heldur tónleika í Sólheimakirkju og í Sesseljuhúsi verður fræðsluerindi um vistvænan lífsstíl.

Menningarveislan heldur áfram og mun gítarleikarinn Björn Thoroddsen stíga á stokk í Sólheimakirkju og halda tónleika þar kl. 14. Björn er einn færasti gítarleikari landsins og má fastlega gera ráð fyrir því að einstök stemning muni myndast í fallegu kirkjunni á Sólheimum.

Eftir tónleikana eða um kl. 15 hefst fræðsluerindi í Sesseljuhúsi. Bryndís Þórsdóttir mun fjalla á lifandi hátt um hvaða leiðir er hægt að fara til þess að velja vistvænan lífstíl. Hvaða máli skipta litlar ákvarðanir daglegs lífs? Er hægt að njóta lífsins um leið og við stígum létt til jarðar?

Margar sýningar eru í gangi í tilefni af menningarveislunni. Í Ingustofu er sýningin „Svona gerum við“ en það er samsýning vinnustofa Sólheima. Í Íþróttaleikhúsinu er sýningin „Svona erum við“ en Pétur Thomsen ljósmyndari myndaði íbúa Sólheima í raunstærð við leik og störf. Í Sesseljuhúsi er sýningin „Vistvænt skipulag“ sem meistararnemar í byggingaverkfræði og skipulagsfræði við Háskólann í Reykjavík gerðu. Loks er að finna sérkennileg tröll upp í trjám hjá versluninni Völu þetta er sýningin „Tröll í trjám“ eftir Lárus Sigurðsson.

Sýningarnar, verslunin Vala og kaffihúsið Græna kannan eru opin alla daga vikunnar 9 – 18 á virkum dögum og 12 – 18 um helgar og það er ókeypis á alla viðburði og sýningar menningarveislunnar.