Björn sýnir í Listagjánni

Í Listagjá Bókasafns Árborgar á Selfossi hefur verið sett upp ljósmyndasýning með verkum Björns Rúrikssonar.

Björn er hagfræðingur og jarðfræðingur frá Háskóla Íslands, hefur flug- og rútupróf og talar fjölmörg tungumál. Hann hefur verið ötull talsmaður íslenskrar náttúru í gegnum tíðina og hefur haldið fjölmarga fyrirlestra og yfir þrjátíu sýningar á ljósmyndum sínum í Bandaríkjunum, Japan, víða um Evrópu og hér heima.

Greinar og ljósmyndir Björns hafa birst í ýmsum bókum og tímaritum, m.a. Royal Geographical Magazine, Time-Life og Geo.

Björn hefur ljósmyndað náttúru Íslands á landi og úr lofti frá árinu 1970. Hann á að baki um hálfa milljón kílómetra í loftmyndatökum yfir Íslandi en fyrst og fremst hefur hann myndað Ísland á landi.

Hann hefur gefið út bækur með ljósmyndum sem eru m.a. til sýnis í Listagjánni. Björn hefur búið á Selfossi frá árinu 2006 og sér nú um rekstur ferðaþjónustu, sem fararstjóri og leiðsögumaður.

Sýningin stendur til 1. júlí.

Fyrri greinÖll tilboðin yfir áætlun
Næsta greinFestu Yaris uppi á miðjum Kili