Björgvin Franz tekur Kónginn!

Hr. Eydís og Björgvin Franz í hljóðstofu sveitarinnar á Youtube.

Hr. Eydís fær sérstakan gestasöngvara í lag dagsins. Eiginlega alveg einstakur, því það er snillingurinn Björgvin Franz Gíslason.

„Okkur hefur lengi langað að fá hann í heimsókn því ekki bara er hann drengur góður og frábær listamaður heldur er hann mikill ´80s maður,“ segir Örlygur Smári, söngvari og gítarleikari Hr. Eydís.

„Við ákváðum í sameiningu við Björgvin Franz að taka lagið Love & Pride með hljómsveitinni King og ætlum líka að sjálfsögðu að reyna að plata hann til þess að gesta með okkur á tónleikunum „Alvöru ´80s partý“ í Bæjarbíói 24. febrúar næstkomandi.“

Love & Pride smellpassar í flokkinn „einsmellungur“ enda er þetta eina lagið með sveitinni sem einhver man eftir. Love & Pride er ekki mikið spilað í dag og kannski man enginn yfir fertugu eftir þessu lagi, en á sínum tíma var þetta risastórt, enda alveg frábært lag! Lagið kom út upphaflega í apríl 1984 og varð ekkert sérstaklega vinsælt, bæði hljómsveitin og útgefandinn varð fyrir nokkrum vonbrigðum. Hins vegar kom hljómsveitin fram og flutti lagið í sjónvarpsþætti í lok árs 1984 og í kjölfarið freistaði útgáfan gæfunnar og endurútgaf lagið í febrúar 1985. Það var góð hugmynd því lagið skaust þá beinustu leið upp breska vinsældalistann, alla leið upp í annað sætið.

„Það var alveg magnað að fá Björgvin Franz til okkar, hann lifnaði í raun við sem Paul King söngvari hljómsveitarinnar King sem flutti lagið á sínum tíma. Það vantar sko aldeilis ekki hæfileikana í þennan dreng,“ segir Örlygur og bætir við kíminn „…svo er hann með þykkt og fallegt hár sem við öfundum hann allir af“.

Rás Hr. Eydís á Youtube

Hr. Eydís á Instagram

Hr. Eydís á Facebook

Fyrri greinNettó opnar nýja verslun á Selfossi
Næsta greinGestirnir sterkari í seinni hálfleik