Björgvin Franz rennir sér fimlega í falsettuna

Hr. Eydís og Björgvin Franz í hljóðstofu sveitarinnar á Youtube.

Strákarnir í Hr. Eydís smelltu fram nýju föstudagslagi í vikulokin og að þessu sinni var það einn af stærstu smellum áttunnar, Take On Me með norsku strákunum í a-ha. Leikarinn Björgvin Franz Gíslason stígur hér aftur á stokk með sveitinni.

„Við höfum tekið þetta magnaða lag í tónleikapartýjunum okkar og það gerir alltaf allt vitlaust, það var því ekki annað hægt en að taka lagið upp og setja á YouTube. Síðustu tvö tónleikapartýin okkar í bili verða í heimabæ hljómveitarinnar á Selfossi 22. og 23. mars. Síðast seldist upp og við getum lofað alveg trylltri stemmningu,“ segir í tilkynningu frá Hr. Eydís.

Allt er þá þrennt er
Saga lagsins Take On Me er reyndar nokkuð mögnuð, lagið var fyrst hljóðritað í ársbyrjun 1984 og gefið út í október sama ár. Það varð ekkert stórkostlega vinsælt í þessari atrennu, en hljómsveitin og allir í kringum bandið höfðu tröllatrú á laginu og því var það endurhljóðritað og áherslan á hljóðgervla og trommuheila aukin og lagið gefið út aftur. En viti menn, laginu gekk ekkert betur í það skiptið heldur. Flestir hefðu nú gefist upp við þetta „mótlæti“ en norsku strákarnir höfðu gott fólk í kringum sig sem var handvisst um ágæti lagsins. Ráðist var því í það að gera eftirminnilegt myndband með laginu, tæknin „rotoscope“ var notuð þar sem teikningum og myndböndum var blandað saman og bang!!! Lagið var gefið út í þriðja sinn og varð algjör smellur um allan heim! Já, það borgar sig svo sannarlega að gefast ekki upp.

Man vel eftir a-ha í Laugardalshöllinni
Þríeykið í a-ha heimsótti Ísland í júlí 1987 og hélt tvenna frábæra tónleika í Laugardalshöll. Eftir það fóru vinsældir sveitarinnar á heimsvísu að dala, en mörg lög þeirra hafa svo sannarlega staðist tímans tönn og þá sérstaklega Take On Me sem enn hljómar reglulega í útvarpi… og á tónleikum með Hr. Eydís.

„Ég man svo vel eftir tónleikum a-ha í Laugardalshöll. Þeir stóðu þarna í raun á hátindi ferils síns og allt varð vitlaust í Höllinni, sérstaklega þegar þeir tóku Take On Me og manni þóttu þremenningarnir algjörir töffarar,“ segir Örlygur söngvari og gítarleikari Hr. Eydís og bætir við: „Við félagarnir í Hr. Eydís ætluðum ekki að trúa því þegar Björgvin Franz renndi sér fimlega upp í efstu falsettu Morten Harket í laginu, því það gerir ekki hver sem er. Alveg magnaður multitalent hann Björgvin Franz.“

Rás Hr. Eydís á Youtube

Hr. Eydís á Instagram

Hr. Eydís á Facebook

Fyrri greinSigurður skoraði þrennu fyrir Ægi
Næsta greinLyfjaval opnar á Selfossi