Birtíngur kveður Suðurland um helgina

Leikritið Birtíngur sem Leikfélag Selfoss sýndi í vetur, heldur nú brátt í víking og ferðast norður yfir heiðar á NEATA-leiklistarhátíðina sem haldin verður á Akureyri 10. – 15. ágúst nk.

Áður en Birtíngur kveður Suðurland fyrir fullt og allt munu þó verða sýndar tvær fjáröflunarsýningar í leikhúsinu við Sigtún á hátíðinni Vor í Árborg til að safna fyrir ferðina norður.

Sýningarnar verða í kvöld, föstudagskvöld og á sunnudagskvöld. Báðar sýningarnar hefjast kl. 20:00. Stytta þurfti sýninguna um klukkutíma fyrir ferðina og hefur leikhópurinn æft þær breytingar undanfarna daga. Æfingarnar hafa gengið vel og er sýningin, að sögn aðstandenda, þéttari og skemmtilegri og boðskapurinn er að sjálfsögðu enn á sínum stað.

NEATA-leiklistarhátíðin er hátíð áhugaleikfélaga á Norðulöndunum og Eystrasaltslöndunum. Birtíngur var valinn úr hópi sýninga fyrir Íslands hönd ásamt tveimur öðrum íslenskum sýningum. Ferðin norður verður viðamikil enda er um 30 manna hópur með í för. Því var brugðið á það ráð að kveðja Suðurland með þessum hætti.

Aðgöngumiðar seljast með frjálsum framlögum en lágmarksverð verður þó 1000 kr. Aðgangseyrir rennur í ferðasjóð sem notaður verður til að kosta ferðalagið á þessa stórmerkilegu hátíð á Akureyri sem haldin verður í hinu glæsilega menningarhúsi Hofi. Nánari upplýsingar eru á www.leikfelagselfoss.is. Miðapantanir eru í S: 4822787 og á leikfelagselfoss@gmail.com.

Fyrri greinÞrír listar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi
Næsta greinSvört rigning á Hvolsvelli