„Besta gjöfin er samverustund með fjölskyldum og vinum“

Einar Mikael töframaður og Hafsteinn Þór Auðunsson, leikari frá Hveragerði, hafa sent frá sér sitt fyrsta jólalag, „Þúsund jólaár“.

Einar Mikael samdi textann en Hafsteinn Þór samdi lagið og syngur það. Lagið er um ungan strák sem er að syngja til föður síns að hann vilji ekki gjafir heldur einungis jólstund með föður sínum.

„Á síðustu þremur vikum höfum við Hafsteinn heimsótt þrjátíu grunn- og leikskóla ásamt jólasveininum Hurðaskelli, þar sem við sungum lagið og sýndum nokkur töfrabrögð. Tilgangurinn með heimsókunum var að hjálpa börnunum að skilja að besta gjöf sem hægt er að gefa er samverustund með fjölskyldu og vinum sem við elskum,“ segir Einar Mikael og bætir við að þá félaga dreymi um að hreyfa við heiminum með boðskapnum í laginu eins og John Lennon gerði með laginu sínu Imagine.

Hér að neðan er myndbandið við lagið en það er samantekt af myndbrotum frá sýningunum í skólaheimsóknunum.

Fyrri greinSkemmtilegt júdómót HSK fyrir 6 til 9 ára
Næsta greinMarín Laufey efst á styrkleikalista glímukvenna