Barbie snyrtistofan setti Barbieleikinn á hærra plan

Séra Guðbjörg með barnabarnið Ragnar Flóka í fanginu. Ljósmynd/Aðsend

Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur á Selfossi, svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Ég er jólaálfur, ekki spurning. Ég er mikið jólabarn, byrja svona um miðjan nóvember að gera hitt og þetta jólalegt og skreyti oftast allt í kringum fyrstu helgina í aðventu.

Uppáhalds jólasveinn? Stekkjastaur, ég hef alltaf haldið upp á hann enda fæ ég eiginlega alltaf í skóinn frá Stekkjastaur.

Uppáhalds jólalag? Þau eru nokkuð mörg sem ég held upp á, ég hlusta mikið á jólalög á aðventunni og búin að safna saman öllum mínum uppáhalds á sérstakan playlista sem ég hlakka til að fara að spila. Ég man eftir því að halda sérstaklega upp á Ég kemst í hátíðarskap og helst mátti ég ekki heyra það fyrr en rétt áður en jólin komu. En svo verð ég líka að segja Fögur er foldin.

Systurnar Elfa og Guðbjörg á jólunum.

Uppáhalds jólamynd? Þær eru nokkrar og mér finnst líka gaman að kanna nýjar jólamyndir og þær þurfa ekkert endilega að vera allt of góðar, bara enda vel. Ég horfi helst alltaf á The Holiday og svo eru það jólaþættirnir Hjem til Jul en það kom einmitt ný sería út núna fyrir þessi jól.

Uppáhalds jólaminning? Ætli það séu ekki minningarnar af því að sitja við jólatréð á aðfangadag og fylgjast með krökkunum mínum taka upp pakkana og hafa fólkið okkar hjá okkur. Síðan eru þau mjög eftirminnileg jólin og aðventan í desember 2004 en það ár 2. desember fæddist dóttir okkar það var eitthvað svo sérstakt og heilagt að vera með lítið barn á þessum tíma, það setti öll jólin í allt annað samhengi.

Uppáhalds jólaskraut? Ég á enn eitthvað gamalt sem ég hef átt síðan ég var barn og fær að fara upp á hillu og svo eru það litlar glerkrukkur sem krakkarnir hafa málað á í skólanum og ég set kertaljós í. Þeim finnst þetta hræðilega ljótt en ég held mikið uppá þetta.

Minnistæðasta jólagjöfin? Ætli það sé ekki Barbie snyrtistofan sem ég fékk ein jólin, hún var svakalega flott, það var hægt að setja vatn í vaskinn og þvo hárið á dúkkunum og systir mín fékk Barbie sölubás sem seldi hatta, þetta setti Barbie leikinn það árið á hærra plan.

Barbie snyrtistofan breytti leiknum.

Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Að baka einhverjar smákökur í nóvember og svo er það kvöldkaffi á aðventunni að borða þær með ískaldri mjólk.

Hvað er í jólamatinn? Núna í ár eru það andabringur í appelsínusósu en við höfum oft verið með hamborgarhrygg.

Ef þú ættir eina jólaósk? Að sem flestar manneskjur finni frið í hjarta sínu og upplifi sátt og kyrrð.

Gugga og Elfa prúðbúnar við jólatréð í Miðengi 22.
Fyrri greinBergrós valin ungmenni ársins
Næsta greinÞegar Jesús blessaði smjörið í Kaupfélaginu