„Bara tímaspursmál hvenær ég myndi láta verða af þessu“

Alexander Freyr Olgeirsson. Ljósmynd/Gunnar Páll Pálsson

Þann 1. apríl næstkomandi kemur út barnaplatan Út í geim og aftur heim eftir Selfyssinginn Alexander Frey Olgeirsson.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á teiknimyndum, tónlist og íslenskum barnabókmenntum. Ég sæki til dæmis mikinn innblástur í Abbababb eftir Dr. Gunna, Benedikt Búálf og fleiri. Ég fæ margar hugmyndir um sögur, sögupersónur og annað en þar sem ég er ekki reyndur rithöfundur eða teiknari ákvað ég að nýta styrkleika mína í tónlist og gera barnaplötu, fulla af tónlist og leikþáttum,“ segir Alexander í samtali við sunnlenska.is.  

„Á tíma mínum í Fjölbrautaskóla Suðurlands var ég í barnabókmenntaáfanga þar sem lokaverkefnið mitt var lag ætlað börnum og það má einmitt finna á plötunni. Eftir það hefur mig alltaf langað að gera barnaplötu og í rauninni var það bara tímaspursmál hvenær ég myndi láta verða af þessu.“

Vinátta meginþema plötunnar
Út í geim og aftur heim er geimævintýri sem fjallar um ofurstrákinn Ofur-Ólaf og geimprinsessuna Geimgerði sem hittast á plánetunni „Ruglumbull“ og þurfa að leggja krafta sína saman til þess að bjarga plánetunni frá illmenninu Demónusi Þumaltrölli sem ætlar að taka yfir plánetuna og baka alls kyns vandræði. Platan inniheldur ellefu frumsamin lög en er líka með leikþætti inn á milli sem fléttar allt saman í eina sögu.“

„Meginþema plötunnar er vinátta og hvað sönn vinátta getur verið kraftmikil. Boðskapurinn er sá að maður þarf ekki að þykjast vera einhver annar en maður er, því sannir vinir taka manni eins og maður er. Tónlistin er í popp/rokk stíl og með miklum áhrifum frá 9. áratugnum með tilheyrandi synthum og öðru góðgæti. Sjálfur fer ég með hlutverk Ofur-Ólafs og Karitas Harpa, söngkona og vinkona mín, fer með hlutverk Geimgerðar. Það er gaman að segja frá því að allir sem koma að plötunni, nema tveir, eru Sunnlendingar,“ segir Alexander en auk Karitasar Hörpu Davíðsdóttur koma þeir Salómon Smári Óskarson, Skúli Gíslason og Ævar Örn Sigurðsson að plötunni. Önnur hlutverk leika Sólveig Ásgeirsdóttir, Anton Guðjónsson, Gísli Frank Olgeirsson og Arilíus Óskarsson. Unnusta Alexanders, Margrét Harpa, syngur bakraddir.

Alexander segir að markmiðið sé að hafa tónlistina og söguna sem skemmtilegasta fyrir sem flesta, þannig að öll fjölskyldan geti hlustað á plötuna saman. „Að því sögðu myndi ég segja að platan hentaði best krökkum á aldrinum 3-10 ára. Ég hef þó leyft 75 ára gömlum afa mínum að hlusta á nokkur lög með góðum árangri!“ segir Alexander en hann á ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana, ættaður frá Byggðarhorni í Sandvíkurhreppi.

Karitas Harpa og Alexander við upptökur á plötunni. Ljósmynd/Aðsend

Lítið verkefni sem stækkaði og stækkaði
„Ég byrjaði að vinna í Út í geim og aftur heim sumarið 2019. Þá settist ég niður og fór yfir demó-upptökur í símanum mínum sem voru yfir 700 talsins og allt frá árinu 2011. Ég vann úr upptökunum og var fljótt kominn með beinagrind að barnaplötu. Ég fékk vini mína Skúla Gíslason til að spila inn trommur og Ævar Örn Sigurðsson til að spila á bassa.“ 

„Ég tók plötuna upp sjálfur og fór það ýmist fram í herbergi hjá móður minni, Pakkhúsinu á Selfossi eða inni í stofu heima hjá mér. Þegar ég byrjaði á verkefninu átti það bara að vera lítil barnaplata sem væri mest spiluð á kassagítar og sungin að mestu leyti af mér sjálfum. En eftir því sem ég hélt áfram varð verkefnið bara stærra og stærra, þátttakendum í verkefninu fjölgaði og nú stend ég eftir með metnaðarfullt verkefni sem ég er afar stoltur með. Verkefnið hefur aðeins dregist í tíma, enda aðeins stærra verkefni en ég bjóst við þegar ég byrjaði og hefur einnig tafist vegna Covid,“ segir Alexander.

Dóttirin stærsti gagnrýnandinn
Alexander og unnusta hans, Margrét Harpa Jónsdóttir, eiga saman dótturina Vöku Röfn, þriggja ára, og hefur hún sterkar skoðanir á verkefni föður síns.Við Vaka erum dugleg að hlusta saman á tónlist og horfa á teiknimyndir. Hún er minn stærsti aðdáandi en einnig minn stærsti gagnrýnandi. Hún lætur mig vita ef henni finnast einhver lög leiðinleg og líka ef henni finnst einhver sérstaklega skemmtileg. Nú þegar hefur hún sannfært mig um að skera þrjú lög af plötunni.“ 

„Vaka hefur verið með mér í öllu ferlinu og hlustaði með mér þegar lögin voru bara hráar demó-upptökur. Uppáhalds lagið hennar er lagið um Vonda kallinn og ég held að það sé vegna þess að það er vindgangshljóð í laginu,“ segir Alexander og hlær.

Alexander og dóttirin Vaka Röfn, sem er dugleg að ráðleggja pabba sínum varðandi verkefnið. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsti apríl uppáhalds „smá hátíðin“
Sem fyrr segir kemur platan út 1. apríl næstkomandi en nokkur töf varð á útgáfunni. „Þegar ég byrjaði ætlaði ég að gefa út plötuna 1. júní 2020. Það reyndist mikil bjartsýni en mér tókst þó að gefa út eitt lag þá. Ég hafði hugsað mér að gefa plötuna út fyrir jólin 2020 en ákvað að vera ekkert að flýta mér, því þá næði ég ef til vill ekki að einbeita mér nógu mikið að útgáfu og öðru. Fyrsti apríl fannst mér góður tími, þá nær fólk að hlusta yfir páskana með fjölskyldunni og njóta samverunnar. Fyrsti apríl er líka uppáhalds „smá hátíðin“ mín og nýt ég þess að hrekkja vini mína og fjölskyldumeðlimi. Gísli Frank bróðir minn hefur lent verst í því en það er önnur saga,“ segir Alexander.

Alexander segist vilja leggja sitt að mörkum við að byggja upp íslenska barnatónlistarmenningu. „Við munum fylgja plötunni eftir eins og við getum og stefnum á að koma fram í búningum sem Ofur-Ólafur og Geimgerður í náinni framtíð og syngja og dansa með krökkunum. Endilega leyfið krökkunum að hlusta og hlustið með!“ segir Alexander að lokum.

Plötuna má finna á Spotify og Youtube undir nafninu Út í geim og aftur heim. Einnig er hægt að kaupa geisladiska, boli og litabækur á Facebooksíðu verkefnisins

Plötuumslagið.
Fyrri greinKonur með kennitölu
Næsta greinLokað milli Markarfljóts og Víkur