Bara stressuð á fyrstu tónleikunum

Agla Bríet Gísladóttir, tæplega níu ára stelpa frá Selfossi, söng með Stuðmönnum þegar þeir voru með allt á hreinu í Hörpu um síðustu helgi.

Það var Egill Ólafsson, söngvari Stuðmanna sem bauð henni að taka þátt, en hann og Agla unnu saman í uppfærslu á leikritinu Vesalingunum í Þjóðleikhúsinu. „Þar voru langar æfingar og Agla söng stanslaust fyrir samstarfsfólk sitt þar eins og annars staðar,“ segir Maríanna Ósk, móðir Öglu. „Honum hefur sennilega líkað það sem hann heyrði.“

Egill hafði samband við Maríönnu og vildi vita hvort Agla vildi syngja á þessum endurkomu tónleikum. Agla Bríet var mikið til í það þrátt fyrir að vera ekki alveg viss um hvað málið snérist. „Hún hélt að hún væri bara að fara að syngja fyrir vin sinn Egil og kannski fjölskyldu hans.“

Öglu Bríet þótti hins vegar ekki leiðinlegt að vera á sviðinu í Hörpu. „Það var mjög gaman, eiginlega æðislegt,“ segir Agla sem var ekkert stressuð áður en hún steig á svið. „Nei, bara aðeins á fyrstu tónleikunum.“

Hún söng viðlagið í Stuðmannalaginu Haustið ´75 áður en hljómsveitin spilaði lagið. Á sama tíma var leikarinn Jóhannes Haukur með henni á sviðinu. Hann lék drukkinn föður og á meðan söng Agla: „Það er ekkert út á hann að klaga, edrú alla daga.“

Nánar í Sunnlenska fréttablaðinu.