Á Bókasafninu í Hveragerði hefur nú verið sett upp sýning á „bönnuðum bókum“.
Það er við hæfi að hafa sýninguna núna, en í Bandaríkjunum hefur í 30 ár verið haldin „vika bannaðra bóka“ í september til að minna á tjáningarfrelsið. Sýningin stendur til 2. október. Þær bækur sem eru til sýnis hafa flestar verið bannaðar eða reynt að banna þær.
Bækur hafa verið bannaðar um allan heim á öllum tímum fyrir margra hluta sakir. Þær hafa þótt særa blygðunarkennd, hvetja til ósæmilegrar hegðunar, vera fjandsamlegar ákveðnum þjóðum eða þjóðfélagshópum, hafa skírskotun til pólitískra skoðana sem eru stjórnvöldum á móti skapi o.s.frv..
Sumt kemur meira á óvart en annað í þessum efnum bæði hvað varðar bækurnar sjálfar og svo ástæðurnar sem upp eru gefnar. „Dagbók Önnu Frank“ og homosexualismi er ekki tenging sem liggur beint við. Að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af buxnalausum Andrési Önd er heldur ekki það sem maður helst ímyndar sér. En ímyndunarafli annarra eru ekki slík takmörk sett.
Það er því forvitnilegt og skemmtilegt að sjá um hvaða bækur er að ræða. Velkomin á bókasafnið.