Austur-Eyfellingar frumsýna í kvöld

Átta leikarar taka þátt í sýningunni auk fjölmargra aðstoðarmanna baksviðs. Ljósmynd/Leikfélag Austur-Eyfellinga

Leikfélag Austur-Eyfellinga frumsýnir í kvöld kl. 20 hið vinsæla leikrit Maður í mislitum sokkum eftir Arnmund Backman. Sýnt er á Heimalandi Vestur-Eyjafjöllum.

Leikritið fjallar um Steindóru, einmana ekkju, sem býr í blokk ásamt fleiri eldri borgurum. Hún rekst óvænt á ókunnan mann í bílnum sínum einn daginn þegar hún kemur úr búðinni. Hann er kaldur, hrakinn og illa áttaður, veit ekki hvaðan hann kom, eða hvert hann er að fara. Hún tekur hann heim með sér til að hlúa að honum, og þá hefst atburðarrás, sem aðrir íbúar blokkarinnar hafa sínar skoðanir á. Má bara hirða fólk nánast upp af götunni án þess að láta einhvern vita?

Leikstjóri sýningarinnar er Gunnsteinn Sigurðsson. Átta leikarar taka þátt í sýningunni auk fjölmargra aðstoðarmanna baksviðs. Næstu sýningar eru á föstudag, sunnudag og þriðjudaginn 21. nóvember.

Aðgangseyrir kr. 3.500 fyrir 12 ára og eldri en afsláttur er veittur fyrir 10 manna hópa og stærri. Miðapantanir berist á netfangið leikfelausture@gmail.com eða í síma 824-8889, 846-0781 og 843-0766

Fyrri greinFyrsta tap Hamars í vetur
Næsta greinHitaveita Grímsnes- og Grafningshrepps kaupir Orkubú Vaðness